Macron mætir Le Pen

Macron og Le Pen eru sigurvegarar fyrri umferðar frönsku forsetakosninganna …
Macron og Le Pen eru sigurvegarar fyrri umferðar frönsku forsetakosninganna skv. útgönguspám. AFP

Útgönguspár benda til þess að miðjumaðurinn Emmanuel Macron og Marine Le Pen hafi borið sigur úr býtum í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna. Þau muni því mætast í seinni umferðinni sem fer fram 7. maí.

Þetta kemur fram á vef BBC, sem vísar í franska ríkissjónvarpið.

Macron er sagður hafa fengið 23,7% atkvæða og Le Pen 21,7%.

Alls buðu 11 sig fram til forseta en helstu andstæðingar Macron og Le Pen voru Francois Fillon, frambjóðandi mið- og hægrimanna, og harðlínuvinstrimaðurinn Jean-Luc Melenchon. Stuðningur við þá báða mældist 19,5% samkvæmt útgönguspám.

Macron er fyrrverandi efnahagsmálaráðherra í stjórn Sósíalistaflokksins. Hann sagði sig úr honum og stofnaði nýjan stjórnmálaflokk í ágúst til að bjóða sig fram til forseta.

Macron var fé­lagi í Sósí­al­ista­flokkn­um frá 2006 til árs­ins 2009. Hann hóf störf fyr­ir Hollande for­seta Frakk­lands árið 2012 en hafði frá 2011 aðstoðað Hollande við fram­boðið og var skipaður iðnaðar- og efna­hags­málaráðherra í rík­is­stjórn Manu­els Valls í ág­úst 2014. Hann sagði af sér embætti 30. ág­úst 2016 og stofnaði um svipað leyti nýj­an stjór­nála­flokk, miðju­flokk­inn En Marce eða Hreyf­ing­una á ís­lensku.

Ef Macron verður kjör­inn for­seti verður hann yngst­ur til þess að gegna því embætti í Frakklandi.

Faðir Le Pen stofnaði Þjóðfylkinguna fyrir hálfum fimmta áratug. Andstaða við Evrópubandalagið (nú Evrópusambandið, ESB) hefur verið á stefnuskránni frá upphafi, flokkurinn er alfarið á móti Schengen-samstarfi Evrópuríkja um ytri landamæri álfunnar en sá liður í stefnuskrá flokksins sem lengi vakti mesta athygli, og deilur, var andúð á innflytjendum. Frakkland fyrir Frakka, var slagorð flokksins.

Hún hefur lagt áherslu á að milda ímynd sína til að auka líkurnar á því að hún verði forseti. Hún vék föður sínum, Jean-Marie Le Pen, frá sem heiðursformanni Þjóðfylkingarinnar árið 2015 vegna umdeildra yfirlýsinga hans. Hún hefur einnig mildað yfirlýsingar sínar um múslima og íslam.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert