„Gegn Marine og gegn Macron“

Frá mótmælunum á Bastillutorginu í kvöld.
Frá mótmælunum á Bastillutorginu í kvöld. AFP

Átök brutust út í París á milli lögreglu og mótmælenda skömmu eftir að greint var frá útgönguspám í frönsku forsetakosningunum. Þrír voru handteknir. Að sögn fréttamanns AFP á vettvangi köstuðu sumir úr röðum mótmælenda flöskum og flugeldum. 

Vinstrisinnaðir mótmælendur komu saman til að lýsa yfir óánægju sinni með að Marine Le Pen, frambjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, hefði komist áfram í næstu umferð kosninganna, en hún er lengst til hægri á kvarða stjórnmálanna. Hópurinn mótmælti einnig sigri Macron.

AFP

Nokkur hundruð ungmenni söfnuðust saman á Bastillutorginu eftir að útgönguspár lágu fyrir, þ.e. að Le Pen myndi mæta miðjumanninum Emmanuel Macron.

„Gegn Marine og gegn Macron,“ kallaði leiðtogi hópsins í gjallarhorn.

„Við erum hér samankomin til að mótmæla gegn þessum kosningalátbragðsleik,“ sagði einn mótmælanda í samtali við AFP.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert