Corbyn vill fjölga frídögum

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. AFP

Verkamannaflokkurinn í Bretlandi, sem er í stjórnarandstöðu, ætlar að fjölga almennum frídögum um fjóra ef hann vinnur þingkosningarnar í júní.

Um er að ræða dagana sem tilheyra verndardýrlingunum í Englandi, Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi.

Leiðtogi flokksins, Jeremy Corbyn, sagði að þessi fjölgun frídaga myndi „veita verkafólki það frí sem það á skilið“. Á sama tíma myndu frídagarnir sameina þjóðirnar fjórar sem tilheyra Stóra-Bretlandi eftir að ákveðið var að ganga úr Evrópusambandinu.

Bresku þingkosningarnar verða haldnar 8. júní. Samkvæmt skoðanakönnunum er breski Verkamannaflokkurinn 11 til 25 prósentustigum á eftir Íhaldsflokki Theresu May forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert