Yfir 130 látnir í árás talibana

Afganskir hermenn standa vörð skammt frá svæðinu þar sem árásin …
Afganskir hermenn standa vörð skammt frá svæðinu þar sem árásin var gerð í gær. AFP

Yfir 130 hafa fallið í árás sem talibanar gerðu á afganska herstöð í gær skammt frá borginni Mazar-e-Sharif, sem er í norðurhluta Balkh-héraðsins. Bardagar stóðu þar yfir í nokkrar klukkustundir.

Talibanar hafa lýsti yfir ábyrgð. Þeir gerðu árás á hermenn sem voru að koma úr mosku í kjölfar föstudagsbæna. Einnig var ráðist á hermenn í mötuneyti herstöðvarinnar. Þá segjast talibanar hafa sent menn í sprengjuvestum á vettvang til að brjóta sér leið inn á svæðið, að því er segir á vef BBC. 

Óttast er að tala látinna muni koma til með að hækka. 

Að minnsta kosti 10 liðsmenn talibana féllu í átökunum og einn er í haldi. 

Í frétt BBC segir, að liðsmenn talibana hafi verið klæddir eins og hermenn og ekið í gegnum eftirlitshlið áður en þeir létu loks til skarar skríða. 

John Thomas, talsmaður Bandaríkjahers, segir að þetta hafi verið stórt högg, en hann hrósaði afgönskum sérsveitarmönnum fyrir að hafa stöðvað árásarmennina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert