Unaðsstunur töfðu tennisleik

Frances Tiafoe heyrði stunurnar hátt og og skýrt og lét …
Frances Tiafoe heyrði stunurnar hátt og og skýrt og lét konuna heyra nokkur vel valin orð.

Háværar unaðsstunur töfðu tennisleik í Flórída fyrr í vikunni. Leikurinn var sýndur í beinni útsendingu og á myndbandi má heyra allt sem fram fer, ekki síst hlátrasköll áhorfenda.

Í miðjum leik bandarísku keppendanna Mitchell Krueger og Frances Tiafoe á Sarasota Open mótinu í Flórída, mátti allt í einu heyra konu stynja af mikilli innlifun og ástríðu. 

Nokkuð hik kom á leikmennina sem og þulinn sem lýsti keppninni. „Ó, já!“ mátti m.a. heyra konuna hrópa. Þulurinn sagði ljóst að hljóðin kæmu úr íbúð í nágrenni við völlinn en einhverjir héldu því fram í fyrstu að um væri að ræða hringitón í síma. Það þykir þó ólíklegt þar sem hljóðin voru óregluleg og auðheyrilega ekki æfð. „Nei, þetta er ekki sími,“ heyrist þulurinn segja.

Áhorfendur hlógu dátt og stunur konunnar urðu sífellt háværari í þann mund sem Tiafoe átti uppgjöf. „Þetta getur ekki verið svona gott!“ hrópaði hann í átt að hávaðanum.

„Jæja, einhver er að minnsta kosti að eiga gott kvöld,“ sagði þulurinn.

Þess má geta að Tiafoe fór að lokum með sigur af hólmi í viðureigninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert