Skutu á allt sem hreyfðist

Árás sem talibanar stóðu fyrir á herstöð í Afganistan í gær er ein sú mannskæðasta sem afganski herinn hefur orðið fyrir í átökum við talibana. Ríflega 100 afganskir hermenn létust eða særðust í árásinni að sögn varnarmálaráðuneytisins þar í landi. Árásarmennirnir voru klæddir eins og hermenn.

Árásin átti sér stað skammt frá borginni Mazar-e-Sharif, sem er í Balkh-héraðinu í norðurhluta landsins. Bardagar stóðu yfir í nokkrar klukkustundir, en vopnaðir vígamenn réðust á hermenn sem höfðu nýlokið föstudagsbæn en einnig var ráðist á hermenn í mötuneyti hersins, að því er fram kemur í frétt BBC. 

„Þegar ég gekk út úr moskunni hófu þrír menn í hermannafatnaði að skjóta og einnig var skotið úr herökutæki. Það er ljóst að þeir hafa notið aðstoðar einhverra í herstöðinni, því annars hefðu þeir aldrei komist inn,“ segir Mohammad Hussain, sem er afganskur hermaður sem særðist í árásinni. 

Hussain segir enn fremur að einn árásarmannanna hafi verið með vélbyssu ofan á bifreið og skotið alla sem hann sá. 

Upphaflega var talið að 134 hefðu fallið, en afganska varnarmálaráðuneytið segir hins vegar að rúmlega 100 hafi látist eða særst. Þá féllu að minnsta kosti 10 liðsmenn talibana í árásinni og einn var handsamaður. 

Talibanar hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir ábyrgð. Þeir segjast hafa sent menn í sprengjuvestum á vettvang til að sprengja sér leið inn á svæðið. 

Sem fyrr segir voru árásarmennirnir klæddir í einkennisfatnað afganska herliðsins og tókst þeim að aka í gegnum eftirlitsstöðvar áður en þeir gerðu loks árás, sem rennir stoðum undir það að árásarmennirnir hafi átt sér vitorðsmenn sem aðstoðuðu þá við að komast inn á svæðið.

Ashraf Ghani, forseti Afganistans, heimsótti svæðið í dag og ræddi við særða hermenn. 

Fram kemur á vef BBC, að árásin sýni fram á að talibanar geti skipulagt og framkvæmt flóknar árásir. Fjórir árásarmannanna eru sagðir hafa þjónað í hernum í mörg ár og hafi þekkt herstöðina mjög vel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert