Vilja stjórnanda Kelihos framseldan

Levashov „leigði“ netið út gegn gjaldi.
Levashov „leigði“ netið út gegn gjaldi. AFP

Rússi sem er í vörslu yfirvalda á Spáni hefur verið ákærður í Bandaríkjunum fyrir að stjórna svokölluðu Kelihos neti, sem samanstendur af þúsundum sýktra tölva sem notaðar eru til að dreifa ruslpósti og taka rafræn gögn í gíslingu.

Peter Levashov, frá St. Pétursborg, er 36 ára gamall og gengur undir fjölda nafna á netinu. Hann var handtekinn á flugvellinum í Barcelona 7. apríl sl. að beiðni bandarískra yfirvalda. Þau hafa farið fram á að Levashov verði framseldur vestur um haf.

Levashov hefur m.a. verið ákærður fyrir að stela aukennum annarra og ýmis önnur svik. Ef hann verður fundinn sekur á hann yfir höfði sér mörg ár í bandarísku fangelsi.

Bandarísk yfirvöld segja Levashov m.a. hafa leigt öðrum aðgang að Kelihos til að senda milljónum manna ruslpóst og heimta lausnargjald fyrir stolin gögn. Þau segja hann hafa haft getu til að senda út svikapóst og vírusa gegn gjaldi.

Levashov er sagður hafa verið stoltur af netinu og hafa viðhaft fasta gjaldskrá. Hann rukkaði lögmenn t.d. um 200 Bandaríkjadali fyrir að senda milljón auglýsingapósta og 500 Bandaríkjadali fyrir milljón svikapósta.

Þá er hann sagður hafa innheimt 5.000-10.000 dali fyrir að aðstoða menn við að leika á hlutabréfamarkaðinn með því að senda fjöldapóst á verðbréfamiðlara.

Bandarísk yfirvöld tóku netið niður í apríl sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert