Stúlka má bera nafnið Allah

Bandarísk stúlka má bera eftirnafnið Allah. Mynd úr safni.
Bandarísk stúlka má bera eftirnafnið Allah. Mynd úr safni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Rúmlega eins árs gömul stúlka má bera eftirnafnið Allah. Bandarískir foreldrar hennar höfðu betur í dómsmáli gegn ríkinu um nafngiftina. Áður hafði ríkið bannað að barnið bæri eftirnafnið þar sem hvorugt foreldri hefði umrætt eftirnafn. Ríkið benti á að annað hvort þyrfti stúlkan að bera eftirnafn annars foreldrisins eða beggja. BBC greinir frá. 

Lögfræðingur hjónanna sagði niðurstöðu dómsins vera sigur fyrir frelsi einstaklingsins í landinu. Ríkið á ekki að stjórna því hvaða nöfn foreldrar velja fyrir börnin sín, bætti hann við. Samkvæmt lögum í Georgíu-fylki í Bandaríkjunum þurfa yfirvöld að samþykkja mannanöfn sem mega ekki vera meiðandi eða móðgandi.  

Þessari niðurstöðu eru fjölmennustu samtök múslima í Bandaríkjunum ekki sammála og segja nafnið geta verið móðgandi. 

Foreldrar barnsins þau Elizabeth Handy og Bilal Walk, segjast ekki hafa valið nafnið af trúarlegum ástæðum heldur þyki þeim það göfugt. Stúlkan heitir því fullu nafni ZalyKha Graceful Lorraina Allah.

Frú Handy gengur nú með fjórða barn þeirra hjóna en ekki fylgir sögunni hvaða nafn ófædda barnið mun fá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert