Olíufyrirtækin fá ekki undanþágur

Olíuborpallur í eigu Rosneft.
Olíuborpallur í eigu Rosneft. AFP

Bandaríska fjármálaráðuneytið hyggst ekki aflétta viðskiptaþvingunum gegn rússneskum fyrirtækjum til að bandarísk olíufyrirtæki geti haldið áfram olíuborunum í Rússlandi. Olíufyrirtækið ExxonMobil sótti um undanþágu frá þvingununum til að geta haldið áfram samstarfi sínu við rússneska fyrirtækið Rosneft en mun ekki verða að ósk sinni.

„Að höfðu samráði við Donald Trump forseta mun fjármálaráðuneytið ekki veita bandarískum fyrirtækjum undanþágur, þeirra á meðal Exxon, og heimila þannig borun sem er bönnuð samkvæmt yfirstandandi viðskiptaþvingunum gegn Rússum,“ sagði í yfirlýsingu ráðuneytisins.

ExxonMobil hafði áður reynt, án árangurs, að tryggja sér undanþágu þegar Barack Obama sat í Hvíta húsinu og hóf aftur umleitanir sínar í mars sl., skömmu eftir að fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Rex Tillerson, var skipaður í embætti utanríkisráðherra.

Tillerson, sem átti í nánum samskiptum við Vladimir Pútín Rússlandsforseta og Rosneft, hafði sagt sig frá undanþáguákvörðuninni.

Stjórn Trump hefur þó nokkur tengsl við olíugeiran og hefur heitið því að greiða fyrir rannsóknum og framleiðslu. Samskipti Bandaríkjamanna og Rússa hafa hins vegar mátt þola högg eftir að Bandaríkjaher beitti sér gegn sýrlenska stjórnarhernum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert