Gíslarnir lausir eftir 16 mánaða prísund

Veiðimenn frá öðrum löndum koma til Írak til að veiða …
Veiðimenn frá öðrum löndum koma til Írak til að veiða dýr sem ekki er að finna í þeirra heimalöndum. AFP

Hópi veiðimanna, sem var rænt í Írak fyrir sextán mánuðum, hefur verið sleppt úr haldi. Talið er að meðlimir úr konungsfjölskyldunni í Katar séu þeirra á meðal.

Íraska innanríkisráðuneytið sagði í dag frá því að allir í hópnum, 26 talsins, hafi verið frelsaðir og dvelji nú í Bagdad. Sendinefnd frá Katar mun síðar í dag taka við hópnum.

Í frétt BBC um málið segir að hópnum hafi verið rænt af vopnuðum mönnum í eyðimörkinni í Írak skammt frá landamærunum að Sádi-Arabíu í desember árið 2015.

Umfangsmikil leit hófst þegar í stað en litlar sem engar vísbendingar um hvar hópinn var að finna komu fram. Þá fengust engar upplýsingar um hvort fólkið væri enn á lífi.

Í frétt BBC segir að lausn þeirra úr haldi sé talin vera hluti af flóknum samningi ríkjanna sem m.a. fól í sér að uppreisnarmenn hörfuðu úr nokkrum þorpum í Sýrlandi. Íraska innanríkisráðuneytið neitar að tjá sig um það.

Hins vegar hefur komið fram að shía múslímar í ríkisstjórn Íraks hafa gagnrýnt stuðning yfirvalda í Katar við uppreisnarmenn í Sýrlandi.

Talið er að meðal fólksins sem var rænt séu einn eða fleiri meðlimir konungsfjölskyldunnar í Katar. Það hefur hins vegar ekki verið staðfest opinberlega.

Á hverju ári koma hópar fólks til Írak til að veiða dýr sem ekki er að finna í þeirra heimalöndum eða eru í útrýmingarhættu þar og því bannað að veiða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert