Fundu ekki byssuna í handfarangrinum

Noell Grant fann byssuna í handfarangri sínum þegar hún millilenti …
Noell Grant fann byssuna í handfarangri sínum þegar hún millilenti í Taívan. AFP

Lögreglukona sem var ekki á vakt flaug út frá alþjóðaflugvellinum í Los Angeles með byssu í handfarangrinum, án þess að vopnið uppgötvaðist við gegnumlýsingu handfarangurs hennar.

Byssuna hafði lögreglukonan, Noell Grant, tekið með sér fyrir mistök. Hún var á leið til Taílands í frí með fjölskyldunni og það var ekki fyrr en hún millilenti í Taívan að hún uppgötvaði að hún var með vopnið og sex byssukúlur á sér.

Hún lét yfirvöld vita og hefur nú verið bannað að yfirgefa Taívan fyrr en búið er að leysa úr málinu.

Bandarísk alríkisyfirvöld hafa viðurkennt að öryggiseftirliti hafi ekki verið sinnt rétt á flugvellinum og að Grant hafi farið í gegnum flugvöllinn með vopnið í töskunni.

„Þeir sem bera ábyrgð á þessu verða látnir svara til saka,“ hefur BBC eftir Nico Melendez hjá ferðaöryggisstofnunni Transportation Security Administration.

Ekki er ljóst hvort Grant verði kærð fyrir agabrot fyrir að að hafa tekið byssuna með sér er hún kemur aftur til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert