Corbyn ekki forsætisráðherra

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins. AFP

Breski Verkamannaflokkurinn reiknar ekki með sigri í þingkosningunum sem boðað hefur verið til í Bretlandi 8. júní í sumar. Þetta hefur fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph eftir Helen Goodman, þingmanni flokksins og fyrrverandi ráðherra. Ummælin koma í kjölfar þess að þrettán þingmenn Verkamannaflokksins hafa tilkynnt að þeir sækist ekki eftir endurkjöri. Þar á meðal þingmenn sem gegnt hafa háum stöðum fyrir flokkinn.

Einnig er haft eftir Goodman að hún telji ekki að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, verði næsti forsætisráðherra Bretlands. Miklar deilur hafa staðið yfir innan flokksins um forystu Corbyns en hann er talinn mjög vinstrisinnaður. Flokksmenn nær miðjunni hafa átt erfitt með að sætta sig fyrir formennsku hans frá því að hann var fyrst kjörinn 2015. Síðasta sumar var lögð fram vantrauststillaga á Corbyn en hann stóðst þá atlögu.

Boðað var til leiðtogakjörs innan Verkamannaflokksins í september og var Corbyn endurkjörinn með meiri stuðningi en áður. Deilur um forystu hans hafa þó haldið áfram og eftir að boðað var til þingkosninganna hafa þær raddir orðið háværari sem vilja að hann víki. Verkamannaflokkurinn hefur verið að mælast með sögulega lítið fylgi eða um 24-25% á sama tíma og breski Íhaldsflokkurinn, sem er í ríkisstjórn, hefur mælst með 46-48%. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert