Berst við að standa við loforðin

Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði því í síðustu umferð að hann …
Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði því í síðustu umferð að hann myndi setja heilbrigðisfrumvarpið á hilluna ef ekki næðist um það sátt og einbeita sér að skattamálum. Nú virðist hann hafa tekið u-beygju. AFP

Repúblikanar unnu að því í dag að undirbúa nýtt lagafrumvarp til höfuðs heilbrigðislöggjöf Barack Obama, svokallaðri Obamacare. Þeir stefna að því að taka frumvarpið til atkvæðagreiðslu í næstu viku; áður en Donald Trump hefur setið 100 daga í Hvíta húsinu.

Forsetinn þrýstir nú á um að málið klárist, í kjölfar mikils ósigurs í síðasta mánuði þegar þingmönnum Repúblikanaflokksins mistókst að ná saman um niðurstöðu. „Okkur miðar vel í heilbrigðismálunum. Við sjáum hvað setur,“ sagði Trump við blaðamenn í gær. „Þetta er í þróun.“

Íhaldssamir og hófsamir repúblikanar sitja að smíðunum með fulltrúum Hvíta hússins en enginn texti liggur fyrir enn sem komið er og því allsendis óvíst að meirihluti sé fyrir frumvarpinu í fulltrúadeild þingsins.

Fari svo að leiðtogar flokksins kynni nýtt frumvarp til sögunnar og taki það til atkvæðagreiðslu í næstu viku verður um að ræða snarpan viðsnúning í áætlun þingsins, þar sem afgreiða þarf frumvarp um fjármögnun alríkisins fyrir miðnætti á föstudag.

Trump virtist fullur bjartsýni þegar hann var spurður að því hvort hann hygðist segja í forgang. „Ég vil klára bæði,“ svaraði hann en eftir klúðrið í síðasta mánuði gaf hann til kynna að hann hygðist setja heilbrigðisfrumvarpið á hilluna og einbeita sér að breytingum á skattkerfinu.

Hvíta húsið virðist hins vegar hafa endurnýjað áhuga sinn á því að afnema Obamacare; eitthvað sem Trump hét því að gera á fyrstu 100 dögunum í embætti á meðan kosningabaráttan stóð sem hæst.

Öryggiseftirlit á þaki Hvíta hússins, þar sem menn vinna að …
Öryggiseftirlit á þaki Hvíta hússins, þar sem menn vinna að því hörðum höndum að snúa Obamacare. AFP

Umdeild drög

Repúblikanar hafa í mörg ár svarið og sárt við lagt að snúa heilbrigðislögum Obama og sagt þau til marks um taumlaus afskipti ríkisvaldsins. Frumvarpið sem Paul Ryan, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeilinni, talaði fyrir í síðasta mánuði var fordæmt af íhaldsmönnum sem „Létt-Obama“, þar sem aðeins stóð til að draga úr niðurgreiðslum vegna heilbrigðisþjónustu en ekki að útrýma þeim.

Margir íhaldssamir flokksmenn vildu fella úr gildi ákvæði sem þeim þykja íþyngjandi, t.d. þeim sem skylda tryggingafyrirtæki til að bjóða upp á lágmarkspakka sem ná m.a. til mæðraverndar og geðheilbrigðisþjónustu.

Í nýju drögunum, sem voru birt af Politico, verður einstaka ríkjum heimilað að styðjast ekki við þessi ákvæði. Þá munu þau einnig getað sleppt því að skylda tryggingafyrirtækin til að innheimta sama iðgjald af öllum, óháð heilsu viðkomandi.

Markmiðið vinnunar sem nú fer fram er að afla nægilegs stuðnings frá bæði íhaldssömum og hófsömum repúblikönum. Nokkrir þingmanna flokksins hafa þegar lýst yfir efasemdum um nýju drögin, þeirra á meðal Rodney Davis, sem sagðist hafa átt samtöl við einstaklinga innan Hvíta hússins um framhaldið.

„Ég held að við séum enn í samningaviðræðum,“ sagði hann í samtali við CNN. „En ég mun ekki styðja frumvarp sem heimilar að neita greindum einstaklingum um tryggingar,“ sagði hinn hófsami Davis.

Trump ávarpar þingið í febrúar sl. Repúblikanar eru klofnir í …
Trump ávarpar þingið í febrúar sl. Repúblikanar eru klofnir í afstöðu sinni til heilbrigðisfrumvarpsins. Sumir vilja afnema Obamacare með öllu, á meðan aðrir vilja halda í ákveðna þætti. AFP

„Klára þetta á réttan hátt“

Leiða má líkur að því að Demókrataflokkurinn eins og hann leggur sig muni setja sig upp á móti frumvarpinu og því er afar mikilvægt að repúblikanar sameinist um það allir sem einn. Þetta á ekki síst við í öldungadeildinni.

„Repúblikanar ættu ekki að eyða tíma sínum í fleiri heilbrigðishneyksli þegar tíminn til að fjármagna ríkið er að renna út,“ sagði Steny Hoyer, einn af leiðtogum demókrata á þinginu, í yfirlýsingu.

Þrátt fyrir yfirlýstan vilja forsetans til að afgreiða málið eins flótt og auðið er sagði fjölmiðlafulltrúinn Sean Spicer að menn legðu áherslu á að „klára þetta á réttan hátt“ og ekki innan 100 daga rammans, sem fellur á 29. apríl.

„Ef við getum klárað þetta í næstu viku; frábært. Ef við klárum þetta í vikunni á eftir; frábært,“ sagði Spicer.

Þingið hefur aðeins fimm starfsdaga til að ná saman um fjármögnun ríkisins en til að flækja málið þá hefur ríkisstjórnin gefið til kynna að hún muni freista þess að ná fram umdeildum markmiðum í fjárlögunum.

Spicer sagði stjórnina m.a. hafa verið skýra varðandi það að vilja fjármagna hinn aldræmda landamæramúr Trump, fá heimild til að neita þeim borgum um fjárframlög sem hafa heitið því að veita innflytjendum grið, og auka fjárútlát til hersins um 30 milljarða dala.

Demókratar hafa sagt slíkar „eiturpillur“ munu kæfa frumvarpið í fæðingu en samþykkt þess er háð stuðningi nokkurra demókrata í öldungadeildinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert