Afplánaði 12 ár fyrir árásir á lögreglu

Lögregla við eftirlit í dag.
Lögregla við eftirlit í dag. AFP

Byssumaðurinn sem skaut lögreglumann til bana í miðborg Parísar í gær hafði setið meira en 12 ár í fangelsi fyrir að skjóta að lögreglu. Þá var hann til rannsóknar hjá öryggisyfirvöldum. Karim Cheurfi var fangelsaður fjórum sinnum á árunum 2001-2014 fyrir morðtilraunir, ofbeldi og rán.

Cheurfi, 39 ára, ók upp að lögreglubifreið á Champs Elysées-breiðgötunni í gærkvöldi, fór út og skaut ökumanninn tvisvar í höfuðið. Þá hóf hann skothríð að lögreglumönnum sem stóðu úti á götu og særði tvo alvarlega.

Árásarmaðurinn var skotinn til bana af lögreglu þegar hann reyndi að hlaupa á brott. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslam voru ekki lengi að lýsa árásinni á hendur sér en orðsending til varnar samtökunum fannst nærri líki Cheurfi.

Lögreglumaðurinn sem lést hét Xavier Jugelé. Hann starfaði fyrir herlögregluna áður en hann gekk til liðs við hina borgaralegu lögreglu árið 2010.

Yfirvöld í Frakklandi höfðu löngum óttast að til blóðsúthellinga kæmi í aðdraganda forsetakosninganna sem fara fram um helgina. Þá telja menn mögulegt að árásin muni leggja ljá öryggi og öfgatrú aukið vægi í kjörklefanum.

Framkvæmdastjóri stéttarfélags lögreglumanna, Denis Jacob, leggur blóm að staðnum þar …
Framkvæmdastjóri stéttarfélags lögreglumanna, Denis Jacob, leggur blóm að staðnum þar sem lögreglumaðurinn lést. AFP

Chaurfi fæddist árið 1977 í Livry-Gargan, einu úthverfa Parísarborgar. Hann var síðast handtekinn í febrúar sl. eftir að tilkynningar bárust þess efnis að hann hefði rætt um að ráðast gegn lögreglu.

Hnífar og grímur fundust á heimili hans en voru ekki talin grundvöllur til að halda honum. Á þeim tímapunkti lágu engin sönnunargögn fyrir um tengsl Chaurfi við Ríki íslam.

Haglabyssa og hnífar fundust í bifreið Cheurfi á Champs-Elysées og lögregla hefur nú til rannsóknar hvernig hann komst yfir Kalashinov riffil.

Cheurfi hafði hlotið dóma fyrir þrjár morðtilraunir; þar af tvær sem beindust gegn lögreglumönnum. Hann skaut að lögreglumanni og almennum borgara í kjölfar bílaeltingaleiks og greip skotvopn annars lögreglumanns og skaut að honum þegar hann sat í varðhaldi.

Hann hlaut 20 ára dóm en var sleppt árið 2013. Í júlí 2014 var hann dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir ofbeldisfullt rán en var sleppt ári seinna.

Nágrannar Cheurfi og móður hans í Chelles lýstu honum sem manni sem hefði „tapað glórunni“ og væri „sálrænt skemmdur“. Hann hafði aldrei sést í moskunni á svæðinu.

„Hann hataði lögregluna og Frakkland,“ sagði maður að nafni Abdel í samtali við AFP. Hann hefði e.t.v. snúist til öfgatrúar í fangelsi en virtist ólíklegur til að ganga til liðs við Ríki íslam.

Í yfirlýsingu hryðjuverksamtakanna var árásarmaðurinn nefndur Abu Yusuf al-Beljiki, eða „Belginn“, sem vakti áhyggjur af því að annar árásarmaðurinn gengi laus.

Forsætisráðherrann Bernard Cazeneuve sagði í dag að farið hefði verið yfir alla öryggisferla vegna kosninganna og að stjórnvöld væru öllu viðbúin.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

Mikill viðbúnaður verður í Frakklandi um helgina vegna forsetakosninganna.
Mikill viðbúnaður verður í Frakklandi um helgina vegna forsetakosninganna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert