16 ára tölvuhakkari þénaði tugi milljóna

Drengurinn var handtekinn í herberginu sínu heima hjá foreldrum sínum.
Drengurinn var handtekinn í herberginu sínu heima hjá foreldrum sínum. mbl.is/Brynjar Gunnarsson

Adam Mudd, breskur tölvuhakkari sem er með Asperger-heilkennið, þénaði tæplega 300 þúsund pund eða rúmlega 42 milljónir króna á tölvuforriti sem hann hannaði. Forritið gerði um 1,7 milljónir árásir á vefsíður víðsvegar um heiminn.

Málið var tekið fyrir breskum dómstólum í dag en endanlegur dómur verður kveðinn upp á næstunni. Þetta kemur fram á Guardian

Þegar meint brot áttu sér stað var Mudd 16 ára og bjó heima hjá foreldrum sínum. Hann var handtekinn í herbergi sínu þar sem hann sat við tölvuna sína árið 2015. Í fyrstu neitaði hann að veita lögreglunni aðgang að tölvunni eða alveg þar til faðir sagði honum að verða við skipun lögreglunnar.    

Í dag er Mudd 20 ára. Fyrir dómi kom fram að hann hafði raunverulega meiri áhuga á að sýna hvað hann gæti gert og þar með öðlast ákveðinn virðingasess í samfélagi tölvusérfræðinga fremur en að þéna peninga. Hann hefur játað brot sín að hluta.  

Þegar hann hannaði umrætt forrit hafði hann hætt í námi í tölvunarfræði meðal annars vegna eineltis. 

Forritið gerði árás á vefsíður skóla á borð við háskólana í Cambridge, Essex og East Anglia. Þessir sömu skólar þurftu að greiða milljónir punda í að reyna að verjast árásunum. Tölvuleikjafyrirtæki á borð við Minecraft og Xbox Live urðu einnig fyrir barðinu á forriti Mudd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert