Fundu 8 múmíur í 3.500 ára hvelfingu

Vísindamenn rannsaka 3.500 ára kistu. Hún er fínlega skreytt og …
Vísindamenn rannsaka 3.500 ára kistu. Hún er fínlega skreytt og litir hennar hafa varðveist vel. AFP

Egypskir fornleifafræðingar hafa fundið nokkrar múmíur, litríkar líkkistur og fleiri en 1.000 útfararstyttur í 3.500 ára gamalli grafhvelfingu nærri borginni Luxor. Um er að ræða „mikilvæga uppgötvun“, að sögn stjórnvalda.

Upphaflega tilkynntu yfirvöld að sex múmíur hefðu fundist, ásamt fleiri líkamsleifum, en síðar fundust tvær til viðbótar. „Þetta eru tíu kistur og átta múmíur. Uppgröfturinn stendur enn yfir,“ sagði Mostafa Waziri, sem fer fyrir verkefninu.

Umrædd grafhvelfing er á Draa Abul Nagaa-greftrunarsvæðinu nærri Dal konunganna. Hún var útbúin fyrir aðalsmann að nafni Userhat, sem starfaði sem borgardómari.

Grafhvelfingin var fyrst notuð í valdatíð 18. konungsættarinnar en var opnuð á ný þegar sú 21. var við völd, fyrir um 3.000 árum. Þá var fleiri múmíum komið þar fyrir til að fela þær fyrir grafræningjum.

Að sögn Khaled el-Enany, fornleifaráðherra Egyptalands, kom á óvart hversu mikið var í hvelfingunni, þ. á m. yfir 1.000 ushabti, litlar útskornar útfararstyttur. „Þetta er mikilvæg uppgötvun,“ sagði hann við blaðamenn.

Ushabti voru oft látnar fylgja hinum látnu til að aðstoða þá í eftirlífinu. En meðal funda í grafhvelfingunni voru einnig hinar mikilfenglegu kistur, skreyttar fínlegum marglita teikningum og ásjónum hinna látnu.

Flestar þeirra eru í góðu ásigkomulagi.

Enn á eftir að kanna eitt herbergja grafhvelfingarinnar, sem er talið geyma fleiri múmíur.

Fornleifafræðingur sýnir nokkra þeirra hluta sem fundist hafa í grafhvelfingunni.
Fornleifafræðingur sýnir nokkra þeirra hluta sem fundist hafa í grafhvelfingunni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert