Önnur dóttir hjá Zuckerberg og Chan

Hjónin Mark Zuckerberg og Priscilla Chan ásamt dóttur sinni Max.
Hjónin Mark Zuckerberg og Priscilla Chan ásamt dóttur sinni Max. AFP

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, greindi frá því í dag að hann og eiginkona hans, Priscilla Chan, ættu von á dóttur. Þau eiga fyrir hina eins árs Maximu.

„Við erum öll betri manneskjur vegna sterku kvennanna í lífi okkar; systra, mæðra og vina,“ skrifaði Zuckerberg á Facebook. „Við getum ekki beðið eftir því að taka á móti nýju litlunni okkar og gera okkar besta til að ala upp aðra sterka konu.“

Í kjölfar þess að Max, eins og hún er kölluð, kom í heiminn í nóvember 2015 sögðu Zuckerberg og Chang að þau hygðust gefa 99% auðs síns til góðgerðarmála „til að bæta líf allra þeirra sem fæðast inn í þennan heim.“

Góðgerðarstofnun sem nýtur stuðnings hjónanna fjárfesti í kanadísku gervigreindarfyrirtæki með það að markmiði að uppræta sjúkdóma. Í fyrra hétu þau því að verja 3 milljörðum dala á næsta áratug til að útrýma sjúkdómum eða finna við þeim lækningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert