Skutu nashyrning í dýragarði

AFP

Veiðiþjófar brutust inn í dýragarð í Frakklandi í nótt, skutu nashyrninginn Vince til bana og fjarlægðu stóra hornið hans með keðjusög. Þrjótarnir flúðu áður en þeim tókst að saga minna hornið af hræinu.

Yfirvöld segja um að ræða fyrsta tilvikið af þessu tagi í Evrópu.

Dýragarðurinn þar sem Vince átti heimili er í Thoiry, vestur af París. Veiðiþjófarnir brutu sér leið inn í garðinn, skammt frá því svæði þar sem nashyrninginn var að finna, og í gegnum tvær læstar hurðir.

Tveir aðrir nashyrningar voru í sömu byggingu og Vince en lögregla telur mögulegt að eitthvað hafi fælt veiðiþjófana eða búnaður þeirra bilað, þannig að þeir höfðu aðeins tíma til að hafa eitt horn á brott með sér.

Thierry Duguet, framkvæmdastjóri dýragarðsins, segir árásina á nashyrninginn „ótrúlega“ en Vince var eitt vinsælasta dýrið í garðinum. Tilkynnt var um atvikið á Facebook og lýstu margir reiði vegna hins „villimannslega gjörnings“.

Andvirði hornsins er talið nema um 30-40.000 evrum; um 4 milljónum króna.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert