„Geggjað að fá klapp á bakið“

Margrét Rán Magnúsdóttir.
Margrét Rán Magnúsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er þvílíkur heiður að fá að vera ein þeirra sem hlýtur Langspilið, enda flottur hópur sem hlotið hefur það á undan mér. Ég er því bara í skýjunum,“ segir Margrét Rán Magnúsdóttir, sem fyrr í dag hlaut Langspilið – verðlaun STEFs árið 2022.

Langspilið var fyrst afhent 2015 og árlega síðan þá hlýtur höfundur, sem að mati stjórnar er talinn hafa skarað fram úr og náð eftirtektarverðum árangri á nýliðnu ári, þessi sérstöku verðlaun STEFs. Fyrri verðlaunahafar eru Ólafur Arnalds (2015), Ásgeir Trausti (2016), Barði Jóhannsson (2017), Hildur Guðnadóttir (2018), Júníus Meyvant (2019), Anna Þorvaldsdóttir (2020) og Daði Freyr (2021).


Hvatning til að halda áfram

„Það er svo geggjað að fá klapp á bakið fyrir eitthvað sem maður áttar sig ekkert endilega á að maður er búinn að áorka. Þetta er ákveðin staðfesting á því að ég hef verið að gera góða hluti og hvatning til að halda áfram að gera það gott.“ Samkvæmt upplýsingum frá STEFi er Margrét Rán nú skráð sem höfundur 111 verka hjá STEFi, „sem verður að teljast allgott miðað við ungan aldur, en hún er þó vonandi bara rétt að byrja. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að fylgjast með ferli hennar og árangri og er Margrét mjög verðugur verðlaunahafi Langspilsins,“ eins og segir í tilkynningu frá STEFi.

Margrét Rán Magnúsdóttir árið 2013 þegar hljómsveitin Vök sigraði Músíktilraunir.
Margrét Rán Magnúsdóttir árið 2013 þegar hljómsveitin Vök sigraði Músíktilraunir. mbl.is/Styrmir Kári

Þegar fjöldi skráðra verka er borinn undir Margréti Rán hlær hún og segir að talan komi sér ánægjulega á óvart, enda hafi hún ekki gert sér grein fyrir fjöldanum þó draumurinn hafi alltaf verið að geta starfað við tónlist. „Þegar ég var yngri vissi ég alltaf að ég vildi verða tónlistarkona og lifa af því að vinna við tónlist. Það var í raun það eina sem var alltaf kristaltært í mínum huga þó ég væri í ruglinu með flest annað í lífinu,“ segir Margrét Rán kímin og bætir við: „Markmiði mínu er náð eins og er.“

Vinnur að nýrri tónlist

Margrét Rán stofnaði hljómsveitina Vök ásamt Andra Enokssyni 2013 og sama ár sigraði hljómsveitin í Músíktilraunum. Sveitina skipa í dag auk Margrétar Ránar þeir Einar Stefánsson og Bergur Dagbjartsson. „Vök hefur löngu getið sér gott orð fyrir draumkenndan og lagskiptan hljóðheim, þar sem „electro“ og „indie“ poppi er blandað saman,“ segir í tilkynningu frá STEFi, en Margrét Rán er ekki aðeins aðallagahöfundur sveitarinnar heldur leikur líka á hljómborð og gítar ásamt því að vera söngkona sveitarinnar.

Margrét Rán Magnúsdóttir vakti athygli fyrir túlkun sína á laginu …
Margrét Rán Magnúsdóttir vakti athygli fyrir túlkun sína á laginu Is It True? í meðförum GusGus sem flutt var sem skemmtiatriði í Söngvakeppni Sjónvarpsins fyrr á árinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vök hefur gefið út tvær stuttskífur og tvær breiðskífur, en nýjasta plata sveitarinnar, In the Dark, var valin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019. Á sömu hátíð var Margrét Rán einnig valin lagahöfundur og söngkona ársins. Aðspurð segir hún nýja plötu væntanlega frá sveitinni í haust. En Vök er ekki eina tónlistarverkefnið sem Margrét Rán sinnir, því hún er einnig hluti hljómsveitarinnar GusGus og einn lagahöfunda.

„Við gáfum út plötuna Mobile Home sem valin var poppplata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár. Núna erum við að vinna í nýrri músík auk þess sem við erum að spila á tónleikaferðum erlendis. Við erum nýkomin heim úr tveggja vikna túr þar sem ætlunin var að fara m.a. til Úkraínu og Rússlands, sem eðli málsins samkvæmt gat ekki orðið út af ástandinu,“ segir Margrét Rán og tekur fram að GusGus muni koma fram á ýmsum tónlistarhátíðum erlendis í sumar.

Lengri gerð viðtalsins við Margréti Rán má lesa á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, laugardag. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler