Húmor, leikur og stemning

Mammút gefur út nýja breiðskífu í dag.
Mammút gefur út nýja breiðskífu í dag. Ljósmynd/Saga Sig.

Fimmta breiðskífa hljómsveitarinnar Mammút, Ride The Fire, kemur út í dag, 23. október, og var hún tekin upp í tveimur löndum, annars vegar á Íslandi og þá bæði í Reykjavík og úti á landi, og á Englandi, nánar tiltekið í höfuðborginni London. Árni Hjörvar var upptökustjóri en hann er einnig bassaleikari rokksveitarinnar The Vaccines. Sam Slater sá um hljóðblöndun en hann er þekktur í tónlistarheiminum og hefur til að mynda unnið með Hildi Guðnadóttur. Um hljóðjöfnun sá Mandy Parnell sem er að sama skapi þekktur og hefur t.d. starfað með Björk og Sigur Rós.


Síðasta plata Mammút, Kinder Versions, kom út árið 2017 og hlaut þrenn verðlaun við afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2018. Verður forvitnilegt að sjá hvort nýja platan fylgir þeirri velgengni eftir en blaðamaður fékk að hlusta á vandaðan gripinn áður en hann ræddi við bassaleikara sveitarinnar, Ásu Dýradóttur, sem gekk til liðs við Mammút árið 2006. Auk hennar eru í hljómsveitinni söngkonan Katrína Mogensen, gítarleikararnir Arnar Pétursson og Alexandra Baldursdóttir og trommarinn Valgeir Skorri Vernharðsson en Valgeir tók við kjuðunum af Andra Bjarti Jakobssyni. Segir í tilkynningu að tilfinningaríkur og hljómmikill trommuleikur hans passi vel við leitandi hljóðheim sveitarinnar.

Gátu dólað sér í stúdíói

Ása hefur tekið þátt í gerð allra platna Mammút fyrir utan þá fyrstu. Hún segir hljómsveitina hafa byrjað að gefa út plötur þegar eðlilegt þótti að fimm ár liðu á milli platna. Nú séu hljómsveitir og sólólistamenn að gefa út plötur árlega en hljómsveitin Mammút sé ekki á þeim hraða.

En hver er ástæðan fyrir því að mörg ár líða milli platna hjá sveitinni? „Það er snúið að fanga sköpunarkraft fimm ólíkra aðila á sama tíma. Við semjum flestallt saman og höfum oftast gert allt í sameiningu, fyrir utan lagatextana,“ svarar Ása. „Við höfum alltaf tekið okkur rosalega mikinn tíma í að semja og útfæra og höfum verið svo heppin að geta dólað okkur í stúdíóinu líka.“


Lagatextarnir eru verk Katrínu en Ása segir aðra í sveitinni hafa blandað sér örlítið í textasmíðina. Hún bætir við að allir í hljómsveitinni sinni öðrum störfum meðfram tónlistinni og séu auk þess með fjölskyldur sem skýri líka hvers vegna mörg ár líði milli platna.

Þurftu að treysta og hlusta vel

Í tilkynningu segir að á plötunni kveði við nýjan hljóm að mörgu leyti þar sem hljómsveitin hafi í fyrsta sinn tekið upp plötu í tveimur löndum. „Þetta óhefðbundna upptökuferli leiddi til þess að liðsmenn sveitarinnar unnu að lagahlutum hver í sínu lagi en ferlið skapaði þó ekki fjarlægð á milli þeirra heldur þvert á móti styrkti það traustið á milli þeirra og gaf þeim meira frelsi og vald til þess að spinna og umbreyta jafnvel lagasmíðum hver annars,“ segir þar.
Ása bætir við að þetta sé allt önnur nálgun og að hljómsveitinni hafi þótt hún spennandi tilbreyting. „Auðvitað tókum við líka tímabil þar sem við vorum límd saman svo dögum skipti en okkur fannst þetta skemmtilegur vinkill upp á það að gera að maður gat krukkað í hluti einn og sent áfram og fengið álit. Þetta var svolítið eins og að púsla púsluspil saman, við þurftum að treysta hvert öðru vel og hlusta með vel opnum eyrum,“ segir hún.

Enginn æsingur

– Hefur einhver breyting átt sér stað frá síðustu plötu?


„Það er mjög mikil breyting, þótt hún sé líka á ensku eins og Kinder Versions sem kom út 2017. Við vorum búin að túra plötuna mikið og það voru frábærir túrar og tvö ár sem fylgdu en tók mikið á andlega hjá okkur öllum.


Þetta var svolítið mikið til viðbótar við öll hin lífin okkar og við ákváðum því að gera þessa plötu í meiri rólegheitum og væntingarnar voru aðrar. Maður er ekki beinlínis að bíða eftir að allur heimurinn opnist fyrir manni þegar maður gefur út plötu í dag, við vorum meira að gera hana fyrir okkur og okkar nánasta umhverfi. Sú var tilfinningin, það var enginn æsingur og ég held að það heyrist á plötunni, þótt hún sé þung á köflum þá er hún líka léttari. Það er húmor á henni, leikur og stemning,“ svarar Ása.


Heyra má að nostrað var við plötuna og segir Ása að sveitin og Árni, eiginmaður hennar og upptökustjóri plötunnar, hafi legið yfir henni. „Við höfðum þennan tíma og aðgengi að stúdíói og svo er Árni sjálfur tónlistarmaður og gat nýtt glufurnar milli túra í að liggja yfir þessu með okkur.“

Dúkrista við hvert lag

Lögin á Ride The Fire eru sögð sérstaklega myndræn og út frá þeim myndræna heimi skapaði hljómsveitin persónur sem fylgja plötunni og eru hluti af sjónrænni umgjörð hennar en Ása, sem er líka myndlistarmenntuð, gerði svarthvítar dúkristur við hvert lag. Hún segir að hljómsveitin sjálf hafi alltaf séð um flesta þá myndlist og hönnun sem hefur fylgt plötunum í áranna rás.


Platan mun koma út á vínil og segir Ása að fyrirkomulagið á sölunni á dúkristunum muni brátt liggja fyrir og skal áhugasömum bent á vef hljómsveitarinnar, mammut.is, og einnig facebooksíðu hennar.


Því má að lokum við bæta að Mammút kemur fram á stafrænu tónlistarhátíðinni Live from Reykjavík 13. og 14. nóvember, hátíðinni sem Iceland Airwaves heldur í samstarfi við Íslandsstofu, Reykjavíkurborg, RÚV, Icelandair, Einstaka ölgerð og Landsbankann.

Hér má heyra eitt af lögum plötunnar, Pow Pow, og skoða eina af dúkristum Ásu. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant