Koma óvart upp um sig

Moses Hightower.
Moses Hightower. Ljósmynd/Berglaug Petra Garðarsdóttir

Hljómsveitin Moses Hightower hélt útgáfutónleika haustið 2017 vegna breiðskífunnar Fjallaloft og komust þá færri að en vildu, að sögn liðsmanna sveitarinnar. Var því ákveðið að halda aukatónleika, sem er svo sem ekki óvenjulegt en óvenjulegt er að halda aukatónleika tveimur árum síðar. Þeir verða nú loksins haldnir annað kvöld, 11. október, í Háskólabíói. Ef vel gengur verður hugsanlega einu kvöldi bætt við haustið 2021, að því er fram kemur á Facebook-síðu tónleikanna.

Ömurlegur innanhússhúmor

„Við erum kannski óvart að koma upp um okkur og gyrða niður um okkur í leiðinni,“ segir Magnús Trygvason Eliassen, trommari hljómsveitarinnar. „Við erum að koma upp um ömurlegan innanhússhúmor því við erum faktískt að gera grín að okkur sjálfum og svo kannski öllu í leiðinni með því að halda aukatónleika tveimur árum eftir hina tónleikana. Það er nú eiginlega bara það, okkur fannst þetta ógeðslega fyndið í smástund en svo varð þetta kannski ekki svo fyndið en var þá bara fast.“

Líkt og á fyrstu útgáfutónleikunum mun hljómsveitin koma fram með fimm manna sveit blásturshljóðfæraleikara. „Þetta er viðhafnarútgáfa af sveitinni, við gerum þetta einstaka sinnum. Það er aukaslagverk, aukahljómborð og fimm í blæstri og alls konar,“ segir Magnús.

Spurður að því hvort boðið verði upp á sögustund eða hvort þeir hyggist bara sitja þegjandi og spila segir Magnús að sveitin hafi til þessa ekki verið mikið fyrir að segja frá. „Það hefur runnið upp úr Steina að við séum svolítið vaxmyndir af okkur sjálfum þegar við spilum,“ segir Magnús en Steini þessi er Steingrímur Karl Teague, hljómborðsleikari og söngvari í Moses Hightower. Steini er nýkominn heim úr tónleikaferðalagi með Of Monsters and Men og hefur Moses Hightower því náð nokkrum æfingum fyrir tónleikana.

Stuttskífa væntanleg

Auk laga af Fjallalofti verða leikin nokkur glæný lög sem koma munu út á væntanlegri stuttskífu hljómsveitarinnar. Einnig verða leikin eldri lög sem Moses Hightower hefur ekki flutt lengi. Það er því ákveðin áhætta fólgin í efnisskránni, að sögn Magnúsar og á hann þar við gömlu lummurnar og glænýju lögin.

Hvað skífuna væntanlegu varðar segir Magnús að upptökur séu komnar af vel flestum laganna. Einu lagi hefur verið sleppt út á öldur ljósvaka og nets, laginu „Lyftutónlist“ sem Magnús segir þó alls enga lyftutónlist. Lagið fjalli bara um manneskjur í lyftu.

Áhættusæknir með aldrinum

„Við erum orðnir það gamlir að við erum farnir að taka meiri áhættu en við höfum hingað til gert,“ svarar Magnús þegar hann er spurður að því hvort skífan verði ólík fyrri skífum Moses Hightower. Hann segir nokkur laganna mjög skrítin.

Trommarinn er í framhaldi spurður að því hvort hann fái að flippa svolítið í nýju lögunum með alls konar taktbreytingum og trommarakúnstum. Jú, ýmsar kúnstir má finna á stöku stað, segir hann, en líka fjarveru trommuleiks. Nú eða bassa.

En af hverju Háskólabíó? „Bara af því við höfum spilað þarna inni áður, það er bara stemningin,“ svarar Magnús. Gamli salurinn í Háskólabíói henti vel til tónleikahalds og vel sé að öllu staðið á þeim bænum.

Magnús nefnir að lokum að tónleikar hefjist ekki fyrr en kl. 21, að loknum landsleik Íslands og Frakklands í knattspyrnu karla. Þeir sem vilja horfa á leikinn geta því gert það áhyggjulaust og mætt að honum loknum í Háskólabíó. Miðasala á tónleikana fer fram á tix.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler