„Alltaf hægt að ganga lengra“

Hélène Grimaud.
Hélène Grimaud.

Hún var eitt undrabarna píanóheimsins, var komin með útgáfusamning strax á unglingsaldri og flutningur hennar á 2. píanókonserti Rachmaninoffs kom út á plötu þegar hún var aðeins 16 ára. Síðan hefur Hélène Grimaud verið ein skærasta stjarna sinnar kynslóðar í klassíska tónlistarheiminum.

Hún er nú 48 ára, hefur hljóðritað tugi platna undir merki Deutsche Grammophon, hefur leikið verk höfuðtónskálda með helstu sinfóníuhljómsveitum og stjórnendum og kemur fram á um eitt hundrað tónleikum árlega. Loksins er komið að Íslandi en Grimaud leikur á sunnudagskvöldið kemur einleik í 4. píanókonserti Beethovens á tónleikum hinnar virtu Sinfóníuhljómsveitar Gautaborgar í Hörpu.

Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt tónleika í Gautaborg í apríl í fyrra, við góðar undirtektir. Og nú er komið að Gautaborgarsinfóníunni að leika hér. Auk flutnings Grimaud með hljómsveitinni á víðfrægum konserti Beethovens eru á efnisskránni svíta úr óperunni Der Rosenkavalier eftir Strauss og frumraun Sibeliusar í sinfóníusmíðum.

Hljómsveitarstjóri er hinn finnski Santtu-Matias Rouvali, einn eftirsóttasti ungi stjórnandinn um þessar mundir. Hann hefur í tvígang stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands við mikið lof en hefur gegnt stöðu aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gautaborg síðan í fyrra.

Átti að leika við opnun Hörpu

Tónleikarnir eru hluti af tónleikaferð Gautaborgarsinfóníunnar um Norðurlönd og hefur verið uppselt á tónleikana í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Ósló. Hélène Grimaud hefur verið gestalistamaður hljómsveitarinnar í vetur, með sérstakri áherslu, segir hún, á þennan konsert Beethovens, þann 4. Og hún hlakkar mikið til að koma til Íslands.

„Ég hlakka gríðarlega mikið til að leika í tónlistarhúsinu í Reykjavík,“ segir hún. „Það stóð til að ég kæmi þar fram á opnunarhátíðinni, þegar húsið var tekið í notkun, en því miður veiktist ég og tónleikunum var aflýst. Síðan hef ég beðið allan þennan tíma eftir tækifæri til að koma til Íslands að spila.“

Grimaud ólst upp í Aix-en-Provence í Suður-Frakklandi. Hún var, að eigin sögn, sjálfstæð og frekar mótþróafullt barn, en þegar hún var sjö ára uppgötvaðist að hún hafði afburðatóneyra og var látin byrja að leika á píanó. Hún heillaðist af hljóðfærinu og þótti ekkert verk sem henni var sýnt erfitt að læra; á fjórum árum lauk hún námsefni sem frekar einbeittir nemendur komust yfir á átta. Þar hjálpaði, telur hún, að hún er með svokallaða samskynjun sem uppgötvaðist þegar hún var ellefu ára, sér til að mynda tóna sem liti. Það getur háð sumum en verulega hjálpað öðrum, til að mynda listamönnum eins og henni.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant