Tuttugu ár síðan Beyoncé tók stjórnina

Queen B.
Queen B. AFP

Beyoncé, eða Queen B, drottning poppkúltúrsins, hefur ekki alltaf stjórnað heiminum, ótrúlegt en satt. Söngkonan nýtur án efa mestrar velgengni í tónlistarheiminum í dag, hefur ótal sinnum tekist að „brjóta internetið,“ og skipar sér í hóp stjarna líkt og Oprah og Cher sem þurfa ekkert eftirnafn.

En fyrir tuttugu árum, upp á dag, vissu fáir hver Beyoncé Knowles var, og hvað þá stöllur hennar í stúlknabandinu Destiny's Child. Á þessum degi árið 1998 kom fyrsta plata hljómsveitarinnar út sem ber einfaldlega heiti sveitarinnar.

20 ár eru frá því að fyrsta plata hljómsveitarinnar kom …
20 ár eru frá því að fyrsta plata hljómsveitarinnar kom út.

Á plötunni má meðal annars finna fyrsta slagara Destiny's Child, No, No No. 

Ásamt Beyoncé eru upphaflegir meðlimir sveitarinnar þær Kelly Rowland, LaTavia Roberson og LaToya Luckett. Faðir Beyonce, Mathew, átti stóran þátt í að hljómsveitinni tókst að koma sér á framfæri, en leiðin á toppinn var ekki greið. Samningi sveitarinnar við Elektra Records var sagt upp en útgáfurisinn Columbia veitti söngkonunum tækifæri sem átti eftir að skila sér.

15 ára þegar frumraunin kom út

Fyrsta platan naut ekki mikillar velgengni, komst hæst í 67. sæti Billboard-listans, en kom sveitinni á kortið. „Þetta var neó-sálar-plata og við vorum 15 ára gamlar. Platan var alltof þroskuð fyrir okkur,“ sagði Beyoncé í viðtali við The Guardian árið 2006.

Árið 1999 kom önnur plata sveitarinnar út, The Writing´s on the Wall, sem innihélt meðal annars smellina Bills, Bills, Bills og Say My Name.

Sveitin tók miklum breytingum árið 2000 þegar LaTavia og LaToya yfirgáfu Beyoncé og Kelly. Michelle Williams og Farrah Franklin komu í þeirra stað, en Farrah fékk að fjúka fimm mánuðum síðar og eftir stóðu Beyoncé, Kelly og Michelle. Deilur innan hljómsveitarinnar fylgdu þeim nánast alla tíð og var það ekki síst fyrir tilstilli föður Beyoncé. Fjölskylda Beyoncé spilaði samt sem áður stórt hlutverk í velgengni hljómsveitarinnar og sá móðir hennar, Tina, um að sauma alla búningana sem þær klæddust á sviði.

Hljómsveitin á að sjálfsögðu sína eigin stjörnu í Hollywood.
Hljómsveitin á að sjálfsögðu sína eigin stjörnu í Hollywood. Ljósmynd/Wikipedia

Þriðja plata sveitarinnar, Survivor, er án efa sú þekktasta. Lög eins og Independent Women, Survivor og Bootylicious þekkja allir, það er einfaldlega þannig.

Fjórða plata Destiny's Child, Destiny Fulfilled, kom úr árið 2004, eftir að sveitin tók sér tveggja ára hlé. Plötur hljómsveitarinnar hafa selst í yfir 60 milljónum eintaka um allan heim og hefur Billboard-tímaritið titlað hljómsveitina sem eitt af bestu tríóum tónlistarsögunnar.

Nýttu sér vanmat útgáfufyrirtækisins

Þegar Beyoncé rifjaði upp feril Destiny's Child í viðtali í Elle árið 2016 segir hún að það hafi komið þeim til góða að útgáfufyrirtækið hafi ekki haft trú á þeim.

Kelly , Beyoncé og Michelle voru oftar en ekki í …
Kelly , Beyoncé og Michelle voru oftar en ekki í stíl. Ljósmynd/Facebook

„Þeir trúðu ekki að við værum poppstjörnur. Þeir vanmátu okkur og þess vegna fengum við að semja okkar eigin lög og stjórna tónlistarmyndböndunum. Þegar allt kom til alls kom það sér vel því það er þá sem ég gerðist listamaður og tók stjórnina,“ sagði Beyoncé.

Hvað gerist á Coachella í vor?

Það gerði hún svo sannarlega og sögusagnir eru nú á kreiki um að Destiny's Child muni koma saman á ný á Coachella hátíðinni sem fer fram í Kaliforníu í apríl. Beyoncé er einn af aðalflytjendum á hátíðinni og vonast stór hluti aðdáenda hennar til að hún muni endurtaka leikinn frá Ofurskálinni árið 2013 þegar Destiny's Child kom saman á ný.

Umfjöllun E-online um 20 ára sögu Destiny´s Child

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler