Rígmontnir og spenntir

Hin þrítuga hljómsveit Nýdönsk.
Hin þrítuga hljómsveit Nýdönsk.

Hin þrítuga en þó síunga hljómsveit Nýdönsk sendi frá tíundu hljóðversskífuna, Á plánetunni jörð, 13. september sl. og heldur á laugardagskvöld tvenna tónleika í Eldborgarsal Hörpu þar sem bæði verða leikin lög af henni sem og eldri og sígild lög sveitarinnar. Íslensk-kanadíski tónlistarmaðurinn Lindy Vopnfjörð kemur fram á tónleikunum með Nýdanskri og leikur með sveitinni og syngur, auk þess sem nokkur af lögum hans verða flutt á þeim.

Upptökur á plötunni fóru að hluta til fram í Toronto í Kanada en viðbótarupptökur og hljóðblöndun á Íslandi. Að þessu sinni er strengjasveit í burðarhlutverki og telst það heldur óhefðbundin leið í útsetningum hjá þessari ástsælu hljómsveit sem stofnuð var árið 1987 og hefur starfað óslitið síðan. Haraldur V. Sveinbjörnsson sá um að skrifa út strengi og allir meðlimir Nýdanskrar lögðu til efni á plötunni.

Platan Á plánetunni jörð.
Platan Á plánetunni jörð.

Burt frá amstri dagsins

„Við kunnum okkar part en þurfum að bæta við strengjum og Lindy þannig að við þurfum að æfa, það er allt á fullu bara,“ segir Stefán Hjörleifsson, gítarleikari Nýdanskrar, spurður að því hvernig æfingar gangi fyrir tónleikana. En hvernig gengur hinum önnum köfnu hljómsveitarmeðlimum að koma saman, semja, taka upp og æfa? „Það getur oft reynst erfitt að koma þessum hópi saman, allir erum við uppteknir og á þvælingi út og suður, enda er þetta ekki okkar aðalstarf. Þetta er meira hobbí hjá okkur og góður félagsskapur,“ svarar Stefán. Þeim takist það þó með góðri skipulagningu og þá langt fram í tímann. „Síðan höfum við gert það í seinni tíð þegar mikið liggur við, plötuupptökuvesen, þá förum við eitthvað í burtu, til útlanda gjarnan eins og við gerðum núna. Það hefur reynst okkur best, þá búum við saman og erum saman allan sólarhringinn, að vinna saman. Það er okkar leið til að sleppa burt frá amstri dagsins.“

– Og það hefur væntanlega einhver áhrif á útkomuna?

„Jú, það er í raun og veru allt annað. Það gerist alltaf eitthvað þegar við komum saman, við erum frekar ólíkir í eðli okkar en alltaf þegar við komum saman gerast einhverjir töfrar.“

Moll-blús varð að diskósmelli

Stefán segir vinnubrögðin nú miðað við þau sem voru stunduð fyrir tæpum 30 árum, þegar fyrsta platan kom út, ekki svo ólík. „Við hittumst og æfum, menn koma með sínar hugmyndir inn á borð og við eigum til að taka þær alveg í sundur, í öreindir og setja saman aftur og það kemur einhver allt önnur útkoma. Dæmi um það er „Nýr maður“ af plötunni sem kom út í fyrra sem var moll-blús í ¾ sem endaði sem diskósmellur. Þannig að það getur ýmislegt breyst. En við æfum gjarnan og það eina sem hefur breyst er að við erum aðeins minna tilbúnir þegar við förum í hljóðverið. Í gamla daga vorum við búnir að æfa allt vel og tókum upp hratt en í seinni tíð fílum við betur að eiga eitthvað aðeins eftir. Það kannski helgast líka af því að við förum þarna út og viljum aðeins sjúga í okkur andrúmsloftið,“ segir Stefán.

Hvað aðkomu strengjasveitarinnar varðar segir Stefán að hljómsveitina hafi lengi langað að taka upp plötu með strengjasveit. Nú hafi hún ákveðið að slá til enda tíunda hljóðversplatan og 30 ára afmæli sveitarinnar. „Okkur fannst við hæfi að láta verða af þessari strengjahugmynd og við viljum gera eitthvað ólíkt því sem við höfum gert áður,“ segir Stefán. Nýdönsk hafi leigt heimili kanadísks tónlistarmanns í Toronto, þriggja hæða hús, og tekið upp trommuleikinn og grunnana í eldhúsinu, gítarleik í svefnherberginu og annað í hljóðveri í húsinsu. „Þetta voru vinnubúðir með upptökumöguleika,“ segir Stefán. Strengjum hafi verið bætt við á Íslandi síðar.

„Við fengum Harald Vigni Sveinbjörnsson til að útsetja og vorum alltaf meðvitaðir um það frá upphafi að við vildum ekki gera of mikið. Við tókum upp grunnana og skildum eftir mikið pláss fyrir hann til að útsetja strengi og setja ofan á þetta. Þannig að Haraldur á mikinn þátt í hinni endanlegu útkomu.“

Óhræddir

– Þetta er „mjúk“ plata, ef svo mætti segja?

„Já, hún er það, lágstemmdari en margt sem við höfum gert áður. Við leyfum okkur kannski aðeins meira, það eru lög á þessari plötu sem hefðu ekki farið á fyrri Nýdanskrar-plötur af því þau hefðu ekki passað alveg inn í stemningu þess tíma. Nú erum við óhræddari við að setja lög sem eru kannski ekki alveg í okkar anda,“ svarar Stefán.

Daníel Ágúst Haraldsson og Björn Jörundur Friðbjörnsson semja sem fyrr lagatexta og spurður að því hvort einhver breyting hafi orðið á þeim kveðskap segist Stefán ekki vera rétti maðurinn til að svara því. „Ég veit ekki hvort þeir eru að breytast eitthvað en ég held að þeir séu bara að þroskast eins og annað í kringum okkur,“ segir hann.

– Það er alltaf stutt í grínið?

„Já, stutt í grínið og tvíræðni.“

„Greatest hits“ eftir hlé

– Verðið þið með leikræna tilburði í Eldborg, eitthvert „show“?

„Við ætlum að spila nokkur lög af plötunni fyrir hlé og þar verður strengjasveit með okkur. Við tökum líka eldri lög með strengjum og það er búið að stilla upp skemmtilega, við verðum með flotta sviðsmynd og það verður mikið lagt í ljósin, eins og oft áður en það eru nýir hlutir að gerast þar. En það verður ekki að öðru leyti neitt „show“, þannig séð. Eftir hlé spilum við „greatest hits“ og spjöllum á milli laga. Þannig að ég myndi ekki kalla þetta „show“ en þetta verður fallegt á að líta og hlýða.“

Stefán segir að lokum að hljómsveitin sé rígmontin yfir plötunni og spennt fyrir helginni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler