Norður og niður með Sigur Rós

Sigur Rós leggur Hörpu undir sig milli jóla og nýárs.
Sigur Rós leggur Hörpu undir sig milli jóla og nýárs. Ljósmynd/Sigur Rós

Milli jóla og nýárs leikur Sigur Rós á fernum tónleikum í Hörpu, spilar 27., 28., 29. og 30. desember í Eldborgarsalnum. Á sama tíma verður listahátíðin Norður og niður haldin í Hörpu.

Norður og niður er sjálfstæður viðburður en Sigur Rós stendur einnig að hátíðinni. Á henni verða tónlistarviðburðir, innsetningar, dans, kvikmyndasýningar og óvæntar uppákomur vina og samverkafólks Sigur Rósar í gegnum tíðina úti um allt hús.

Lokahnykkurinn á Íslandi

Georg Hólm, bassaleikari Sigur Rósar, segir að hljómsveitinni sé alltaf ofarlega í huga að spila hér á landi þegar skipulagðar eru tónleikaferðir: „Við byrjum stundum á Íslandi, en oftast höfum við tekið lokahnykkinn hér.“ Hann segir að það sé dýrt fyrir sveitina að halda tónleika hér sem séu sambærilegir við þá sem hún heldur ytra og þannig tapi hljómsveitin yfirleitt á þeim tónleikum sem hún hefur haldið hér, „og stundum fullt af peningum“.

„Að þessu sinni langaði okkur til að tapa ekki alveg eins miklu og síðast og líka að gera eitthvað öðruvísi, ekki bara vera í Höllinni enn eina ferðina, ekki það að ég sé að dissa Höllina, en við höfum spilað þar svo oft. Annað sem kom til var að í tónleikaferðinni spilum við í London á þrennum tónleikum og líka á þrennum tónleikum í París og á tvennum í Berlín og okkur langaði til að halda aðeins áfram með það konsept og spila nokkra tónleika í röð á Íslandi. Eini tíminn sem það var hægt í Hörpu var á milli jóla og nýárs þar sem hún er svo bókuð.“

Hvað ef við bjóðum fullt af fólki?

„Svo pældum við í því að gera eitthvað meira: Hvað ef við bjóðum fullt af fólki? Hvað ef við fáum fólk sem við höfum verið að vinna með eða höfum einhverja tengingu við? Ekki endilega að við höfum unnið með því, heldur líka fólk sem við fílum eða höfum fengið innblástur hjá og alls konar tengingar?“ Georg segir að í framhaldinu hafi þeir félagar haft samband við fjölmarga, en það gefi augaleið að ekki komist allir. „Það spilar inn í hver er laus og hver nennir, við fáum ekki allt sem við viljum. Það eru mörg nöfn komin en einhverjir eru enn á biðlista, nöfn sem fólk þekkir og önnur sem það þekkir minna. Svo verður dans og líklega myndlistarsýning og kannski ljósmyndasýningar og alls konar uppákomur og sölubásar með ýmislegt á boðstólum sem aldrei hefur verið til áður.

Harpa er skrýtinn staður og þegar maður labbar inn veit maður ekki hvort maður er á tónleikastað eða í flugstöð. Við leggjum undir okkur bygginguna og búum til allt aðra stemningu en hefur verið þar áður, tökum mómentið og búum til minningu sem er allt öðruvísi en nokkur hefur upplifað þarna inni.“

Jarvis Cocker verður á Norður og niður.
Jarvis Cocker verður á Norður og niður. Flickr/Raph_PH

Forvitnileg verkefni forvitnilegs listafólks

John Best, umboðsmaður hljómsveitarinnar og samstarfsmaður til fjölda ára, segir að hugmyndin að hátíðinni hafi kviknað undir lok síðasta árs þó að aðdragandinn sé lengri. „Í gegnum árum hefur hljómsveitin oft verið beðin að taka þátt í forvitnilegum verkefnum forvitnilegs listafólks. 2012 gerðum við Dularfullu kvikmyndatilraunina, þegar við fengum áhugaverða leikstjóra til að búa til stuttmyndir út frá lögunum á Valtara til þess að létta álagi af hljómsveitinni, enda vildu strákarnir ekki fara í viðtöl vegna plötunnar. Norður og niður er í raun sprottið af áþekkri hugsun.

Þegar farið er um heiminn í tónleikaför hitta menn alls kyns skapandi fólk og Sigur Rós hefur unnið með fólki í tónlist, leiklist, listdansi og kvikmyndagerð. Samhliða þeim verkefnum safnast líka saman verkefni sem hljómsveitin hefði viljað taka þátt í og það eru margir sem hún gefði viljað vinna með en það gat ekki gengið upp á sínum tíma fyrir ýmsar sakir. Svo er það líka fólk sem sveitarmenn hafa kynnst á tónleikahátíðum og náð góðu sambandi við og nú þegar spila á í Eldborg gafst tækifæri á að kalla á þetta fólk og leggja undir sig húsið með tónlist, myndlist og fleiri verkefnum.“

Vinnum að frábærum hugmyndum

– Þetta er óneitanlega býsna metnaðarfullt verkefni.

„Við erum auðvitað meðvitaðir um þau metnaðarfullu verkefni sem farið hafa út um þúfur á Íslandi á árinu og eins það sem gengið hefur illa eða stendur tæpt. Við erum raunsæir en viljum gera það sem við getum verið stoltir af, eitthvað sem fólk vill taka þátt í sem listamenn eða sem gestir.

Harpa er frábært hús og möguleikarnir blasa við þegar maður gengur um húsið, en það felur líka í sér ýmsar áskoranir, en við erum komnir með tónlistarfólk sem við höfum trú á og erum að setja saman sjónræna dagskrá. Skipulagið er langt komið að mörgu leyti hvað varðar tónlistina, en þótt annað sé skemmra komið erum við að vinna að frábærum hugmyndum.“

Fyrstu nöfnin

Eins og John Best nefnir er tónlistardagskrá hátíðarinnar lengst komin og fyrstu nöfnin voru kynnt í vikubyrjun. Jarvis Cocker, forsprakki Pulp, heimsækir Ísland þriðja sinni, en verður nú einn á ferð. Einnig kemur Kevin Shields, stofnandi My Bloody Valentine, fram í fyrsta sinn hér á landi á hátíðinni. Tilraunatvíeykið Stars of the Lid kemur einnig fram og eins Juliana Barwick, sem tók hér upp breiðskífuna Nepenthe fyrir nokkrum árum. Dan Deacon kemur einnig fram á hátíðinni, en hann skemmti í Nasa á Airwaves fyrir sjö árum.

Íslenskir listamenn verða líka áberandi, þar á meðal hljómsveitin Hugar og Jófríður Ákadóttir undir listamannsnafninu JFDR. Sin Fang, Sóley og Örvar Smárason kynna samstarfsverkefni sitt, en þau hafa gefið út eitt lag á mánuði frá ársbyrjun. Fleiri atriði verða tilkynnt á næstu vikum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson