Grande er margt til lista lagt

Ariana Grande að syngja á MTV-tónlistarverðlaunahátíðinni í fyrra.
Ariana Grande að syngja á MTV-tónlistarverðlaunahátíðinni í fyrra. AFP

Bandaríska leik- og söngkonan Ariana Grande er einn vinsælasti skemmtikraftur heims um þessar mundir á meðal ungra stúlkna. Í vikunni var hún skyndilega á allra vörum – illu heilli – eftir hryðjuverkaárás í lok tónleika hennar í borginni Manchester á Englandi þar sem 22 biðu bana og fjölmargir særðust.

Hún heitir fullu nafni Ariana Grande-Butera og hóf ung að koma fram heima í Flórídaríki þar sem hún fæddist og ólst upp. Tók fyrst þátt í söngleiknum Annie, þar sem hún fór með titilhlutverkið, og lék einnig í Galdrakarlinum í Oz og Fríðu og dýrinu. Barn að aldri hóf hún einnig að koma fram sem söngkona á heimaslóð, bæði til lands og sjávar; með hljómsveitum í landi og á skemmtiferðaskipum sem sigldu í grennd við Flórída. Grande kom fyrst fram í sjónvarpi á landsvísu þegar hún söng bandaríska þjóðsönginn, The Star-Spangled Banner, fyrir leik hjá íshokkíliðinu Florida Panthers, en venja er að flytja það fallega lag fyrir leiki í stóru atvinnumannadeildunum vestanhafs; íshokkí-, körfubolta-, fótbolta- og hafnaboltadeildunum.

Blóm til minningar um fórnarlömb árásarinnar á torgi í miðborg …
Blóm til minningar um fórnarlömb árásarinnar á torgi í miðborg Manchester. AFP

Snemma varð ljóst hvað Grande vildi gera að ævistarfi; söngurinn var það heillin, sem og leiklistin. Grande var ekki nema 14 ára þegar hún sagði nýráðnum umboðsmönnum sínum að hún vildi gera R&B-plötu; sú tegund tónlistar er ekki auðveld viðfangs en afar vinsæl, stundum kölluð nútíma ryþmablús. Einhverjir hváðu, stúlkan fékk þó sínu framgengt og hefur vart litið um öxl síðan. Hún hefur gefið út fjölda laga sem komist hafa inn á vinsældalista hér og þar um heiminn, auk þess leikið bæði í sjónvarps- og kvikmyndum.

Söngkonan hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna, m.a. Grammy, og henni hafa hlotnast verðlaun bæði á bandarísku og evrópsku MTV-hátíðunum og var á síðasta ári á lista tímaritsins Time yfir 100 áhrifamestu manneskjur í veröldinni. Geri aðrir liðlega tvítugir listamenn betur!

Grande fæddist inn í kaþólska fjölskyldu en sagði sig úr kirkjunni í páfatíð Benedikts sextánda, vegna andstöðu hans og annarra kirkjunnar þjóna við samkynhneigð. Hálfbróðir söngkonunnar, Frankie, er hommi.

Ariana Grande á verðlaunahátíð í Los Angeles í fyrra.
Ariana Grande á verðlaunahátíð í Los Angeles í fyrra. AFP

Unnusti Ariana Grande er rapparinn Mac Miller frá Pittsburg. Þau hafa verið par síðan snemma árs 2013 en áður átti hún í ástarsambandi við leikarann Graham Phillips, eftir að þau léku saman í söngleiknum 13 árið 2008. Eftir það var kærasti hennar grínistinn Jai Brooks og um nokkurra mánaða skeið Big Sean, sem starfaði með henni að tónlist. Helstu áhrifavaldar hennar í músík eru söngkonurnar Mariah Carey og Whitney heitin Houston auk þess sem hún hrífst mjög af Fergie.

Ariana Grande verður 24 ára í næsta mánuði, er fædd 26. júní árið 1993 í Boca Raton í Flórída. Foreldrar hennar eru Joan Grande, forstjóri fjarskiptafyrirtækisins Hose-McCann, og fyrrverandi eiginmaður hennar, Edward Butera, sem rekur hönnunarfyrirtæki í Flórída. Foreldrar hennar skildu þegar hún var átta ára og bjó stúlkan hjá móður sinni. Grande hóf að leika heima í Fort Lauderdale sem barn. Hún á einn hálfbróður, Frankie Grande, sem er dansari, leikari, söngvari, framleiðandi og sjónvarpsmaður.

Hryðjuverkaárásin við lok tónleika Ariana Grande í Manchester á mánudagskvöldið var að sjálfsögðu gríðarlegt áfall fyrir fjölda fólks. Öllum var mjög brugðið, margir eiga um sárt að binda og söngkonunni sjálfri varð svo mikið um að hún gerði þegar í stað hlé á tónleikaferð sinni, en fyrirhugað var að hún kæmi fram í London á fimmtudag og föstudag.

Ariana Grande sem ung stúlka.
Ariana Grande sem ung stúlka.

Tilkynnt hefur verið að Grande komi í fyrsta lagi fram næst í París 7. júní. Ekki verður því af tónleikum sem skipulagðir höfðu verið í Belgíu, Þýskalandi, Póllandi og Sviss.

Grande flaug heim til Flórída daginn eftir tónleikana ásamt móður sinni sem var í tónleikahöllinni þegar árásin var gerð. Hvorugri varð meint af enda árásarmaðurinn fjarri þeim. Bandaríska FOX-sjónvarpsstöðin hélt því fram í vikunni að Grande hefði boðist til þess að greiða fyrir jarðarför allra fórnarlamba árásarinnar í Manchester. Hún sagðist, í tísti á Twitter-reikningi sínum fimm klukkustundum eftir árásina, „niðurbrotin“ og sagðist í raun orðlaus.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant