Góðir golfvellir á landsbyggðinni

Golfvallahönnuðurinn Edwin Roald Rögnvaldsson.
Golfvallahönnuðurinn Edwin Roald Rögnvaldsson. Júlíus Sigurjónsson

Það er hægur vandi á Íslandi að sameina ferðalög um landið og gólfástríðuna, segir Edwin Roald Rögnvaldsson, golfvallahönnuður og höfundur bókarinnar Golfhringur um Ísland, ljósmyndabók sem kom út árið 2002.

„Það er svo merkilegt með Ísland að það er golfvöllur í nánast hvaða plássi sem þú kemur til úti á landi,“ segir hann. „Ég hef hvergi rekist á neitt ámóta erlendis og hef ég þó farið nokkuð víða. Útlendingar eru líka mjög hissa á þessu. Nýlega var ég til dæmis á Bíldudal í heimsókn hjá golfklúbbnum þar og þá sögðu klúbbfélagar mér frá því að þarna hefði verið erlendur maður að vinna að ákveðnu verkefni og hann hefði orðið þrumu lostinn af undrun þegar honum var sagt að þarna væri golfvöllur í þessu liðlega 200 manna þorpi.“

Að sögn Edwins eru golfvellir eða klúbbar innan Golfsambandsins rétt liðlega 60 en fáeinir að auki þannig alls eru golfvellirnir vel á sjöunda tuginn. „Þeir eru gífurlega fjölbreyttir af ýmsum ástæðum. Meðal annars af því hvernig þeir hafa verið gerðir - iðulega af eldheitum áhugamönnum í viðkomandi bæ sem hafa ekki haft mikið fé milli handanna. Sem betur fer liggur mér við að segja því að þá hefur áherslan verið lögð á að finna hentug svæði eða náttúruleg stæði fyrir einstakar brautir og lagt þetta þannig í landið. Með því færðu þennan fjölbreytileika sem mannsheilinn nær ekki að gera, hafi hann fullt frelsi og fullar hendur fjár.“

 Edwin segir þetta vera þróunina í golfvallagerð á heimsvísu. „Það hafa verið að koma fram nýir golfvellir úti í hinum stóra heimi þar sem menn hafa einmitt verið að ganga nokkuð langt í þessu, einfaldleikanum. Þetta eru góðir vellir þar sem hentugt svæði hefur verið valið. Þetta eru vellir sem vakið hafa mikla athygli og fengið mikla viðurkenningu á aðeins örfáum árum þegar yfirleitt tekur drjúgan tíma fyrir golfvelli að vinna sér sess.“

Edwin segir að 18 holu vellir hér á landi séu um 14 talsins. Þeim hafi heldur verið að fjölga nokkuð síðustu árum, aðallega með stækkun valla sem fyrir voru. Ef litið er á velli í þessum flokki og horft til gæða eða náttúrlegs umhverfis segir hann að Vestmannaeyjavöllurinn sé alltaf í nokkrum sérflokki í sínum huga.

„Umhverfið er auðvitað einstakt. Hann er líka oftast í mjög góðu standi enda fljótur til á vorin og Eyjamenn staðið sig vel í að halda honum við.“

Edwin segist þó fyrir sitt leyti ekki síður vera hrifinn af minni völlunum. „Að ýmsu leyti eru það okkar bestu golfvellir enda þótt klúbbarnir séu oft á tíðunum með litla peninga og vanti jafnvel tæki til að annast þá, en í grunninn eru þarna margir áhugaverðustu vellirnir og leynast á hinum ólíklegustu stöðum.“

Kreppan bítur ekki á golfíþróttinni hérlendis

Ekki fer framhjá neinum að golfáhuginn á Íslandi hefur nánast sprungið út á síðustu árum, og Edwin segir það merkilegt í kreppunni hér heima fyrir þá haldi golfíþróttin sínu að minnsta kosti, jafnvel sé um fjölgun að ræða. Á sama tíma eigi golfíþróttin á heimsvísu í gríðarlegum erfiðleikum, til dæmis í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem sé mikil fækkun. Í Bandaríkjunum séu margir golfklúbbar á barmi gjaldþrots

„Það má eiginlega líkja golfiðnaðinum víða erlendis við íslensku bankana, menn misstu sig í góðærinu, íburðurinn varð alltaf meiri og meiri og golfvellirnir urðu að vera svona og svona til að standast samkeppnina.  Til að mæta þessu varð að hækka vallargjöldin, ástundun íþróttarinnar varð dýrari og dýrari. Hún hætti að verða almenningsíþrótt, eins og hún er hér þar sem rukkuð eru hófleg gjöld og þegar allt kemur til alls stendur golfíþróttin hér mun betur að vígi að standa af sér svona ef efnahagsþrengingar heldur en víðast hvar annarsstaðar.“

En hvernig ánetjaðist Edwin sjálfur golfíþróttinni? „Ég byrjaði í gólfi 12 ára. Þá hafði ég séð Severiano Ballesteros í sjónvarpinu og ákvað að þetta væri eitthvað sem ég ætti að gera. En áður en ég byrjaði fór ég í bókasafnið og náði mér í bækur um golf. Í þeim sá ég m.a. teikningar af golfvöllum þannig áður en ég sló fyrstu golfkúlunni var ég farinn að teikna golfvelli.“

Golfvallahönnun blundaði síðan alltaf í honum meðan hann var í námi og síðar íþróttablaðamennsku hér á Mogganum. Hann skráði sig reyndar í sagnfræði í háskólanum en áður en áður en kom að fyrsta tímanum var hann búinn að vinda sínu kvæði í kross og hélt til Englands, til Guildford-borgar. Þar nam hann í tvö ár allt sem viðkom golfi og bætti síðan tveimur og hálfu ári við þar sem hann einbeitti sér að golfvallahönnun. Hún hefur verið hans lifibrauð síðan.

„Maður þurfti auðvitað að sýna svolitla þolinmæði fyrst eftir námið,“ svarar hann þegar hann er spurður út í hvernig hafi gengið að fá verkefni. „En um 2006 fór ég að fá svolítið af verkefnum að utan, einkanlega frá A-Evrópu og rússneskumælandi löndum, svo að ég sett kraft í það að markaðssetja mig á þessum slóðum. Ég komst í kynni við gott fólk þarna, eins og í Litháen, Búlgaríu og síðast en ekki síst í Úrkaínu. Ég hef þannig verið miklu meira á þessum slóðum en hér heima þar til í ár. Núna hef ég verið á fullu hér heima meðan A-Evrópa ber sig heldur aumlega í kreppunni og hægt hefur á ýmsum verkefnum sem ég hef verið að vinna þar.“

Verkefnin hér á landi hafa verið af ýmsum toga, endurhönnun valla eða brauta, stækkanir og fleira af því tagi. „Golfvöllur er aldrei „tilbúinn“ í vissum skilningi því að hann er lifandi vistkerfi, ert alltaf að breytast og svo breytast forsendur, til dæmis vegna fjölgunar í klúbbunum. Þannig að það er búinn að vera rosalegur kraftur í þessu, ekki síst úti á landi. Strax eftir bankahrun auglýsti ég að ég væri tilbúinn að gefa þessum smærri klúbbum 100 vinnutíma á þessu ári og fékk mikil viðbrögð. Eitthvað um 20 aðilar sóttu um og ég hef verið mikið á ferðinni bæði vestur og norður. Marga þessara valla hafði ég ekki séð frá því að ég gaf út Golfhringinn um Íslands 2002. Það var bara mjög gaman að sjá hvað hafði gerst á þessum sjö árum og hvað mikill hugur er í mönnum.“

Við fengum Edwin til að nefna 10 uppáhalds velli sína utan
höfuðborgarsvæðisins. Er val Edwins einskorðað við velli með færri holur en
18, en þó með einni undantekningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert