Kia styður Evrópudeildina

Verðlaunagripur Evrópudeildarinnar.
Verðlaunagripur Evrópudeildarinnar.

Kia verður einn aðalsamstarfsaðili Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu til næstu þriggja ára. Tilkynnt var um samstarfið formlega í dag en Kia hefur verið ötull styrktaraðili UEFA undanfarin ár.

Evrópudeildin (Europa League) er fjölmennasta knattspyrnukeppni heims sem haldin er árlega en alls taka lið frá 54 Evrópulöndum þátt í keppninni. Evrópudeildin er jafnan talin næst stærsta keppni félagsliða í knattspyrnu á eftir Meistaradeildinni. Kia mun láta UEFA fá 90 bíla til afnota fyrir hvern úrslitaleik keppninnar á næstu þremur árum. Bílarnir verða notaðir m.a. til að flytja dómara, starfsmenn og heiðursgesti, að því er fram kemur í tilkynningu.

Auk þess munu Kia og UEFA halda úti í fyrsta skipti sérstakri bikarferð þar sem verðlaunagripur keppninnar, sjálfur Evrópudeildarbikarinn, verður fluttur á milli landa og sýndur knattspyrnuáhugamönnum um alla Evrópu. Kia mun einnig bjóða ungum knattspyrnuáhugamönnum um alla álfuna að taka þátt í keppnum og eiga þannig möguleika á að verða boltakrakki eða leiða keppnisliðin inn á völlinn í Evrópudeildinni.

mbl.is