Nýr G-Wagen kynntur

Ný kynslóð af Mercedes G-Wagen var kynnt til sögunnar á bílasýningunni sem hófst í gær  í Detroit í Bandaríkjunum. Útlitið er hið sama og áður.

G-Wagen er það núverandi módela Mercedes sem smíðað hefur verið lengst, eða óslitið frá 1979, í 39 ár. Hann er sagður þægilegri íveru en áður, íburðarmeiri og auðveldari viðfangs í akstri.

G-Wagen hefur lagt margan jeppann að velli um dagana og til að standast áfram sakeppni um kaupendur er nýi bíllinn mjög breyttur undir skinninu, ef svo mætti segja, og færður til nútímans að ýmissi tækni.

Til að auka innanrými og þar með þægindi ökumanns og farþega er G-Class nú 5,3 sentímetrum lengri og 12,1 sm breiðari en forverinn. Olnbogarými er því meira og 150 millimetrum lengra fótarými mun gera farþegum í aftursætum lífið léttara.

mbl.is