Hyundai frumsýnir vetnisbílinn Nexo

Hyundai Motor kynnti í síðustu viku Nexo, nýja kynslóð rafknúins vetnisbíls á rafeindatæknisýningunni Consumer Electronic Show 2018 í Las Vegas. Þar hlaut bíllinn jafnframt sín fyrstu verðlaun sem „val ritstjóra Reviewed.com“

Nexo fer í sölu á völdum markaðssvæðum núna í janúar og er væntanlegur til Hyundai á Íslandi síðar á þessu ári. Bíllinn er nýjasta flaggskip Hyundai í flokki sífellt stækkandi flota grænna bíla sem byggja á mismunandi lausnum í samræmi við mismunandi aðstæður.

Hyundai hyggst bjóða átján mismunandi græna bíla árið 2025 og jafnframt breiðasta úrval framleiðenda í þeim flokki. Í þeirri þróun gegnir Nexo lykilhlutverki hjá Hyundai.

Búinn hátæknibúnaði

Nexo er búinn öllum helstu tækninýjungum Hyundai sem markaðssvæðin geta valið úr í samræmi við eigin þarfir. Meðal búnaðar má nefna aðstoðarökukerfið ADAS (Advanced Driver Assistance Systems) sem Hyundai er að þróa í átt til fullkominnar sjálfstýringar.

Þá er Nexo einnig búinn háþróaðri blindhornsviðvörun en hingað til hafa tíðkast og er þessi sú fyrsta sinnar tegundar í bílaiðnaðinum. Viðvörunin er búin myndavélum sem birtir ökumanni umhverfi bílsins fyrir aftan og til hliðar við bílinn á miðlægum skjá í farþegarýminu, t.d. þegar verið er að skipta um akrein.

Nexo er enn fremur fyrsti bíll Hyundai sem búinn verður akreinaaðstoð og akstursaðstoð sem hjálpa ökumanni að halda bílnum á akreininni og leiðbeina um heppilegustu leiðina á áfangastað á löglegum hraða í samræmi við aðstæður á mismunandi þjóðvegum. Nexo er einnig búinn stæðisaðstoð  sem leggur bílnum í stæði fyrir ökumanninn án þess að hann þurfi endilega að sitja undir stýri á meðan.

Að fullu rafdrifinn

Nexo er önnur kynslóð Hyundai á rafknúnum vetnisbíl fyrir almennan markað og tekur við af iX35. Nexo dregur nálægt 600 km á vetnistankinum sem er svipað og margir nýjustu bensín- eða dísilbíla í dag. Aflrás Nexo er þannig að efnarafall umbreytir vetni af tankinum í rafmagn sem hlaðið er á rafhlöðu og rafmótor bílsins. Bíllinn er því að fullu rafdrifinn en býr til rafmagn úr vetni með efnarafal. Einungis tekur 3-4 mínútur að fylla vetnistankinn, eða svipaðan tíma og tekur að fylla á bensín- eða dísiltank hefðbundinna fólksbíla. Ekki þarf að stinga Nexo í samband við rafmagn til að hlaða rafhlöðu bílsins.

mbl.is