Toyota bætir við skilningarvitin

Nýverið efndi Toyota Europe til ráðstefnu í höfuðstöðvum sínum í Brussel og bauð þangað blaðamönnum víðsvegar að. Tilefnið var að kynna framtíðarsýn fyrirtækisins hvað öryggismál varðar, bæði þau sem snúa að ökumanni og farþegum en ekki síður þau sem lúta að gangandi vegfarendum.

Undirritaður brá sér til Brussel, fylgdist með og fékk að prófa búnaðinn í reynd á æfingasvæði Toyota. Búnaður sá sem þarna um ræðir verður kominn von bráðar í allar gerðir Toyota-bíla sem hingað koma, frá Aygo og upp í veglegasta Land Cruiser-jeppann, segir Sigurrós Pétursdóttir, vörustjóri Toyota á Íslandi.

Bíllinn bregst líka við

„Það verða allir bílar Toyota með þeim öryggisbúnaði sem kynntur var í Brussel, að einhverju leyti,“ segir Sigurrós og útskýrir að það verði mismunandi milli gerða. „Í Aygo, sem er minnsti bíllinn okkar, verður árekstrar-viðvörunarkerfi, en hann er bara það lítill að það er aldrei hægt að koma fyrir í honum sambærilegum búnaði og er að finna í RAV4, Prius eða C-HR, svo dæmi sé tekið af nýjustu bílunum okkar. Við erum aftur á móti að byggja þetta upp með þeim hætti að öll línan okkar fái svokallað Toyota Safety Sense. Hið svokallaða „Pre-Crash“-kerfi er til dæmis eitthvað sem allir fá. Þar erum við að tala um búnað sem virkar þannig að þegar þú ert að koma að öðrum bíl á miklum hraða þá gefur bíllinn ökumanni hávært hljóðmerki. Ef ekki er brugðist við hljóðmerkinu á neinn hátt þá endar bíllinn einfaldlega á því að snarhemla. En ef ökumaður beygir eða sýnir með öðrum hætti viðbrögð þá lætur bíllinn hann um að leysa úr stöðunni.“

Sigurrós bætir því við að þegar ökumaður hemlar þá dragi bíllinn ályktun af hraðanum sem bíllinn er á, með aðstoð myndavélar, og þegar ökumaður byrjar að snögghemla þá hemlar bíllinn aukalega með. „Þannig eykur bíllinn hemlunarkraftinn. Það er allt gert til að minnka líkur á árekstri og ef árekstur er óumflýjanlegur þá er allt gert til að minnka áhrifin sem af árekstri verða.“

Þessi búnaður er að sögn Sigurrósar kominn í Aygo, Yaris, og kemur í framhaldinu í Auris og Corollu. „Ennfremur er hann þegar kominn í Avensis, RAV4, Prius, C-HR, svo nánast öll línan okkar er á leiðinni í þennan pakka. Hilux-jeppinn fær búnaðinn líka og aðrir koll af kolli. En frá og með haustinu og áramótunum er öll lína ekki bara lúxusútfærslur eða lúxusbílar að fá búnaðinn, alveg frá grunntýpu og að lúxusútfærslu.“

Meiri búnaður í boði

Það þýðir að þessi hátæknilegi öryggisbúnaður verður staðalbúnaður í Toyota-línunni gegnumsneitt. Engu að síður eru sumir bílar betur útbúnir en aðrir, eins og Sigurrós útskýrir.

„Í best búnu útgáfunum, af bílum eins og Prius, RAV4 og C-HR, svo dæmi sé tekið, þá bætist þar við hraðastillir með radar, en þá er skynjari á bílnum sem nemur bílinn á undan og eltir hann hvað hraða varðar, hægir á ef bíllinn fyrir framan gerir það og eykur hraðann að sama skapi ef tilefni er til. Einnig bætist við skynjari fyrir gangandi vegfarendur. Þá skynjar bíllinn sérstaklega ef gangandi vegfarandi er framundan og greinir þar á milli bíla og fólks. Bíllinn lætur vita með hljóðmerki ef þú nálgast gangandi vegfaranda á þesslegum hraða að ekki er útlit fyrir að þú hafir komið auga á hann.“

Sigurrós bendir á að öll þessi öryggiskerfi geti verið háð ákveðnum veðurskilyrðum og ef úti er mikil rigning eða snjókoma þá geti sú staða komið upp að ökumaður sjái hreinlega betur en öryggisbúnaðurinn. Hvað tímasetningar á þessu varðar þá er búnaðurinn að tínast í bílana okkar núna en Rav4 var fyrstur í línunni og eru fyrstu bílar komnir og svo strax í nóvember bætast við fleiri gerðir og svo framyfir áramót,“ segir Sigurrós ennfremur.

Verðhækkanir óverulegar

Þegar haft er orð á því að hér sé á ferðinni öryggisbúnaður sem hljómi hátæknilegur og eftir því dýr þá samsinnir Sigurrós því.

„Algerlega. En þessi búnaður er bara svo mikil nauðsyn og fólki á að líða eins og það sé öruggt í bílunum sínum. Það skiptir öllu máli að þróunin sé á þessa leið, að öryggið sé aðalatriðið og allt sé gert til að koma í veg fyrir að við keyrum á.“

Slíkt kostar alltaf óhjákvæmilega peninga enda „ekkert til sem heitir ókeypis hádegisverður“ eins og hagfræðingurinn Milton Friedman hafði gjarnan á orði. Blasir þá ekki við að Toyota-bílar hækka talsvert í verði við þessar öryggisbúnaðar-uppfærslur? Sigurrós segir svo ekki vera.

„Þegar um er að ræða kaup á nýjum bíl fyrir tvær og hálfa eða þrjár milljónir, til dæmis, þá finnurðu ekki ýkja mikið fyrir verðhækkun upp á fimmtíu til hundrað þúsund krónur, og síst ef um er að ræða margvíslegan öryggisbúnað sem getur sparað margfalt stærri fjárhæðir – og jafnvel forðað alvarlegum slysum eða manntjóni – með því að hjálpa ökumanni við að koma í veg fyrir árekstur. RAV4 kostar í kringum 6 milljónir og hann hækkar við þetta um 150.000 krónur. Sem hlutfall er því verðhækkunin óveruleg, þegar haft er í huga hversu víðtækur öryggisbúnaðurinn er. Það verður einfaldlega ekki hjá því komist að bæta þessum búnaði við nýju Toyota bílana því kröfurnar hjá Euro NCAP eru slíkar í dag að þetta þarf að vera staðalbúnaður til að ná hæstu möguleiku einkunn. Auk þess held ég að þessi öryggisbúnaður, sem var kannski framtíðarmúsík fyrir fáeinum misserum, þyki von bráðar jafn sjálfsagður og þriggja punkta öryggisbelti. Framtíðin er núna,“ segir Sigurrós að lokum.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: