Besti ágústmánuður í áratug

Bílasala hefur aukist í Evrópu í ár.
Bílasala hefur aukist í Evrópu í ár.

Nýskráningar bíla tóku kipp í nýliðnum ágústmánuði í Evrópu og hafa ekki verið fleiri í þeim mánuði í 10 ár. Fyrir svæðið í heild jókst bílasala um 5,6% í ágúst, samkvæmt upplýsingum frá samtökum evrópskra bílsmiða (ACEA).

Alls voru nýskráðir 865.000 nýir bílar til aksturs á evrópskum vegum. Hlutfallslega jókst sala langmest á Ítalíu (15,8%) og Spáni (13%). 

Í þriðja sæti er Frakkland með 8,4% aukningu og Þýskaland með 3,5% en í öllum tilvikum er að  ræða aukningu miðað við ágústmánuð 2016. Hins vegar dróst sala aðeins saman í Bretlandi eða um 6,4%.

Þegar litið er til fyrstu átta mánuða ársins jukust nýskráningar á Evrópusvæðinu um 4,5% miðað við árið áður. Alls hafa um 10 milljónir fólksbíla verið nýskráðir frá áramótum til ágústloka. Á tímabilinu hefur sala aukist á Ítalíu, í Frakklandi og Spáni en frá áramótum hefur bílasala aftur á móti dregist saman um 2,4% í Bretlandi.

mbl.is