Hyundai með nýjan vetnisbíl

Hyundai hefur mikla trú á vetni sem orkugjafa framtíðarinnar í bílasamgöngum. Hefur bílsmiðurinn nú kynnt nýjan vetnisbíl sem kemur á götuna á næsta ári, 2018.

Kynningin fór reyndar fram fyrir luktum dyrum í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, en formleg frumsýning bílsins mun eiga sér stað á rafeindatækjaráðstefnunni árlegu í Las Vegas (CES) í byrjun janúar næstkomandi.

Þrjár myndir af bílnum hafa lekið út og eilítið af upplýsingum öðrum, en hann byggist á FE Concept þróunarbílnum sem sýndur var fyrsta sinni á bílasýningunni í Genf í mars sl. Hann á að leysa af hólmi ix35 vetnisbílinn sem kom til skjalanna 2014.

Hingað til hefur tekist að halda nafni nýja bílsins leyndu. Aflrásin er sögð marka upphaf fjórðu kynslóðar vetnisbrunatækni fyrir bíla en rannsóknir og prófanir á tækni til notkunar vetnis sem orkugjafa í bílum hafa staðið yfir í 20 ár.      
    
Skilvirkni vetnisvélarinnar er sögð komin upp í 60% en mun vera 51% í ix35-bílnum. Aflið hefur verið aukið um 20% í 163 hestöfl. Auðvelt á að vera að gangsetja aflrásina í allt að 30 stiga frosti. Hyundai gengur út frá því að hámarksdrægi bílsins verði 580 kílómetrar á tankfylli vetnis.

mbl.is