Horfa til hlutverks, kostnaðar og umhverfisáhrifa

Við sérstök tilefni fær forsetinn að láni Packard Custom Super …
Við sérstök tilefni fær forsetinn að láni Packard Custom Super 8. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Forsetaembættið notar nokkuð stóran bílaflota og þjónar hver bíll ákveðnu hlutverki. Aðalbifreiðin er Lexus LSH600H árgerð 2007 en Toyota Land Cruiser 120 jeppi, skráður 2006 hefur verið notaður till ferðalaga út á land.

Hjá embættinu fengust þær upplýsingar að nú væri til skoðunar að selja Land Cruiserinn því nýlega voru fest kaup á Audi Q7 jeppa sem hefur svipað notagildi. Cadillac Brougham drossía, árgerð 1990, er líka notuð við hátíðleg tækifæri, sem og Packard Custom Super 8 180 fornbíll, bíll Sveins Björnssonar, sem nú er í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Loks er í flotanum Toyota Corolla, skráð 2006, sem starfsmenn nota til sendiferða.

Ólíkt forsetabifreiðum margra annarra þjóða eru bílarnir á Bessastöðum ekki með neinum sérstökum öryggisbúnaði, s.s. skotheldu gleri, en þeir bílar sem forsetinn notar eru með festingu fyrir bílfána. Allir eru bílarnir svartir og annast starfsmenn sjálfir þrif á þeim.

Frá embætti forseta fengust þau svör að við kaup á bílum væri litið til ýmissa þátta, s.s. hvernig bílarnir henta til þeirra verkefna sem þeim eru ætluð og hvað þeir kosta, og getur þá vegið þungt aukinn viðhaldskostnaður þegar bílarnir eldast. Tekur forsetaembættið umhverfisáhrif einnig með í reikninginn og þannig var t.d. í örútboði vegna kaupanna á nýja Audi Q7 jeppanum gerð krafa um hámarkseyðslu upp á 7 lítra á hverja hundrað kílómetra í blönduðum akstri og hámark sett á kolsýruútblástur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: