Þjóðin sem virðist ekki kunna að leggja

Bílar uppi á stéttum valda óþægindum fyrir gangandi vegfarendur, hvað …
Bílar uppi á stéttum valda óþægindum fyrir gangandi vegfarendur, hvað þá blinda og hreyfihamlaða. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Þegar ekið er um höfuðborgarsvæðið er ekki erfitt að finna bíla sem hefur verið lagt mjög illa, og jafnvel ólöglega.

Sumir taka tvö stæði, aðrir hindra för gangandi vegfarenda, og enn aðrir gerast svo kræfir að leggja í stæði hreyfihamlaðra. Svona fær fólk yfirleitt ekki að leggja í öðrum löndum án þess að eiga von á hárri sekt eða jafnvel þurfa að þola það að lögregla leggi hald á bílinn.

Hvernig stendur á því að Frónbúar eiga svona erfitt með að leggja eins og menn? Blaðamaður leitaði svara hér og þar, og komst að því að mögulega er ein ástæðan að baki frjálslega lögðum bílum að bílastæðin eru of smá.

Þröng stæði fyrir jeppaþjóð

Að sögn Stefáns Agnars Finnssonar yfirverkfræðings hjá Reykjavíkurborg er meginreglan sú að bílastæði séu 2,5 metrar á breidd og 6 metrar á lengd. „En til eru stæði, s.s. í Skeifunni og við Kringluna sem eru þrengri og allt niður í 2,3 metrar á breiddina,“ upplýsir Stefán.

Stundum liggur bara of mikið á að kaupa inn.
Stundum liggur bara of mikið á að kaupa inn. mbl.is/Kristinn Magnússon


Mögulega eru 2,5 metra stæði, og hvað þá 2,3 metra, fullþröng fyrir íslenska flotann, og sennilegt að Íslendingar eigi stærri bíla en gengur og gerist í nágrannalöndunum, þar sem 2,5 metra stæði duga vel. Þannig sýna tölur frá Evrópu að þar eru tíu söluhæstu bílarnir smábílar, ef undann er skilinn Nissan Qashqai smájeppinn. Á Íslandi seljast smábílarnir einnig vel, en í bland við volduga jeppa, og í tíunda sætinu yfir söluhæstu tegundirnar er t.d. Toyota Land Cruiser, sem er um 1980 mm á breidd.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að fari ekki milli mála að fyrirferðarmiklir amerískir pallbílar eru mun meira áberandi á íslenskum vegum en evrópskum.

„Ég játa að ég freistast stundum til þess sjálfur að leggja í tvö stæði ef plássið er af skornum skammti, til að koma í veg fyrir að fá „Hagkaupsdæld“ á bílinn í verslunarferðinni,“ segir Özur.

Kannski væri nær að hafa bílastæðin jafn stór og í Dallas þar sem meðalbreiddin er um 2,6 metrar, og stæði sem eru aðeins 2,3 metrar á breidd þá sérstaklega merkt til notkunar fyrir smábíla eingöngu. Özur bendir á að ef stæðin eru of þröng þá sé við því að búast að notkun stæðanna riðlist. Kannski er einum bíl lagt hárrétt, en sá næsti þarf að fara ögn yfir línuna til að ökumaður og farþegar geti örugglega komist inn og út úr bílnum. Þriðja bílnum þarf svo að hnika enn lengra og þannig koll af kolli þar til að margir bílar stitja rangt í stæði. „Ég hugsa að ef stæðin væru bara 10-15 cm breiðari, þá væri meira af nýtilegum stæðum og bílunum snyrtilegar lagt,“ segir Özur.

19 cm gildari Golf

Það fer eftir aðstæðum hvort leggja má á grasflöt, en …
Það fer eftir aðstæðum hvort leggja má á grasflöt, en má yfirleitt ekki. mbl.is/Kristinn Magnússon


Ekki þarf heldur stæði fullt af jeppum til að upp komi erfið staða, því litlu bílarnir fara líka stækkandi. Fyrsta útgáfa Volkswagen Golf var t.d. 1610 mm á breidd, en nýjasta kynslóðin er 1799 mm á breidd, eða nærri 19 cm breiðari.

Eru einkum tvær ástæður fyrir því að bílar fara stækkandi: annars vegar má ætla að fagurfræðilegar ástæður liggi að baki, enda lítur ný og endurbætt kynslóð af vinsælum bíl út fyrir að vera voldugri og veglegri en eldri útgáfan ef búið er að lengja og breikka hér og þar.

Önnur ástæða fyrir ört stækkandi bílum er mengunarreglur stjórnvalda. Fjallaði Automotive News um það árið 2016 að með því að stækka bílana má stundum færa þá upp í nýjan mengunar- eða eyðsluflokk og þannig fara í kringum æ strangari kröfur. Er þessi þróun svo hröð að á milli áranna 2008 og 2015 jókst meðalflatarmál nýrra bíla um 1.000 fersentimetra.

Þessu tengt þá tekur Sigrún Þorsteinsdóttir sérfræðingur hjá VÍS undir með Özuri að það sé mikill kostur þegar bílastæði eru höfð sem breiðust, til að koma í veg fyrir skv. nuddtjón, eða draga úr líkunum á dældum og lakkskemmdum þegar hurðir rekast utan í. Nefnir hún stæðin við Costco og Ikea sem dæmi um rúmgóð stæði þar sem auðveldara er fyrir ökumenn að athafna sig.

Villta vestrið við verslunarmiðstöðvar

Ljósmyndarar Morgunblaðsins áttu ekki í vanda með að koma auga …
Ljósmyndarar Morgunblaðsins áttu ekki í vanda með að koma auga á illa lagða bíla á ferðum sínum um bæinn.


Þröng bílastæði eru þó ekki eina skýringin á því hversu illa Íslendingar leggja, og ekki hægt að hundsa þá staðreynd að víða má komast upp með að leggja þvers og kruss án þess að fá sekt. Árni Friðleifsson varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir lögregluna ekki skipta sér af stöðubrotum á einkalóðum, nema þess sé sérstaklega óskað af eiganda landsins eða ef bíl hefur verið ólöglega lagt í stæði fyrir hreyfihamlaða. „Annað gildir um stæði fyrir almenning á landi í opinberri eigu, og sektum við þá umsvifalaust ef bíl hefur t.d. verið lagt þannig að hann nýtir tvö stæði.“

Þó fólk telji sig geta sloppið við sekt er samt ósiður að leggja illa, og hvað þá þegar að verið er að valda öðrum óþægindum eða jafnvel skapa hættu. Sigþór Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins, segir það geta verið mjög óheppilegt fyrir blinda og sjónskerta ef bílum er lagt þannig að þeir skaga út á eða fylla jafnvel út í gangstéttar. „Þeir sem sjá illa frá sér, eða jafnvel ekki neitt, eiga ekki endilega auðvelt með að finna leið framhjá bílnum. Þeir þekkja líka sínar gönguleiðir, treysta því að þær séu greiðar, og geta rekið sig harkalega utan í bíla sem hindra eðlilega umferð gangandi, jafnvel þó gengið sé með staf.“

„Ég hugsa að ástæðan fyrir þessum illa lögðu bílum sé m.a. sú að margir nota bílinn eins og úlpu og vilja því vitaskuld helst geta lagt inni í fatahenginu á áfangastaðnum. Í fæstum tilvikum held ég að það vaki fyrir fólki að valda öðrum vandræðum, heldur bara „rétt að skjótast“ og bíllinn því skilinn eftir á stað sem er óheppilegur fyrir alla aðra.“

Berg Þorra Benjamínsson, formann Sjálfsbjargar, grunar að margir geri sér ekki grein fyrir þeim óleik sem þeir gera hreyfihömluðum með því að leggja í stæði þeirra, eða uppi á gangtséttum. „Hugsunarleysið er mikið, og oft bæði verið að taka sérmerkt stæði, sem eru nógu rúmgóð til að fólk í hjólastól geti athafnað sig, en um leið teppa aðkomuleiðir fyrir hjólastóla.“

Ljósmyndarar Morgunblaðsins áttu ekki í vanda með að koma auga …
Ljósmyndarar Morgunblaðsins áttu ekki í vanda með að koma auga á illa lagða bíla á ferðum sínum um bæinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Aðspurður hvað má til bragðs taka til að ala upp þá ökumenn sem leggja ólöglega í stæði hreyfihamlaðra, eða uppi á miðjum stéttum, segir Bergur rétt að athuga hve langt má ganga. Sektir hafi verið hækkaðar en virðist ekki hafa gert mikið gagn. „Kannski væri ráð að fara amerísku leiðina og draga bílana í burtu – sá sem lendir í því einu sinni leggur ekki ólöglega aftur.“

Hvar má leggja og hvernig?

Þó að merkingar mættu víða vera betri, þá ætti yfirleitt að vera nokkuð ljóst hvar má leggja bílum, og hvar ekki. Umferðarlögin tiltaka að ekki megi leggja bíl þannig að valdi hættu eða óþarfa óþægindum fyrir umferðina, eða stöðva ökutæki á gangstétt eða gangstíg. Allir ættu líka að þekkja reglurnar um að leggja bílum að lágmarki 5 metrum frá gangbrautum og vegamótum og skilja bíla ekki eftir á umferðareyjum. Strangt til tekið ætti að leggja bílum í samræmi við akstursstefnu en lögreglan skiptir sér þó yfirleitt ekki af bílum sem lagt er í ranga átt. Þá mæla tryggingafélögin með að bakkað sé inn í stæði, því hættulegra er að bakka út úr stæðum en inn í þau.

Stæði fyrir hreyfihamlaða má aðeins nota eftir að hafa fengið sérstakt leyfi þarf að hafa sýnilegt í framrúðu bílsins. Er ekki nóg að þurfa að styðjast við hækjur eða vera með útlim í gifsi eftir slys: ef leyfið vantar má ekki nota merktu stæðin. P-kortin svokölluðu má fá hjá sýslumönnunum og með umsókninni þarf að fylgja læknisvottorð, mynd og rithandarsýnishorn. Er P-kortið ókeypis og yfirleitt tilbúið næsta dag.

Hvað má til bragðs taka ef bíl er illa lagt?

Árni Friðlaugsson varðstjóri segir lögregluna reyna að bregðast við þegar almennir borgarar tilkynna um bíla sem lagt hefur verið ólöglega. Má hringja í 112 og láta vita en vitaskuld gefist ekki tími til að sinna öllum ábendingum. Að sögn Árna kemur ekki að gagni að taka myndir af brotunum og það sé hlutverk lögreglu að koma á staðinn, staðfesta að ólöglega hafi verið lagt, og ganga frá sekt á staðnum.

En hvað um að deila myndum á netinu af bílum sem er lagt illa? Á Facebook má t.d. finna líflegan hóp sem ber heitið „Illa lagðir bílar“, og sendir fólk þangað inn myndir af bílum íslenskra ökumanna sem virðist fyrirmunað að leggja sómasamlega. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að við þannig myndbirtingu megi númeraplatan ekki sjást „Bílnúmer flokkast sem persónugreinanlegar upplýsingar og má enginn vinna með slíkar upplýsingar án þess að hafa til þess heimild.“

ai@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: