Harðneita að samráð hafi átt sér stað

Þýski bílaiðnaðurinn líður fyrir hneykslismál.
Þýski bílaiðnaðurinn líður fyrir hneykslismál. AFP

Þýski bílasmiðurinn BMW þvertekur fyrir að hafa átt í samráði með öðrum bílasmiðum um að hagræða mælingum á útblæstri díselbíla eða að hafa farið á svig við reglur. 

Greint var frá því að þýsku bílsmiðirn­ir Volkswagen, Audi, Porsche, BMW og Daimler hefðu átt með sér leyni­legt sam­starf frá því á tí­unda ára­tug síðustu ald­ar um ýmis mál, svo sem meng­un frá dísil­bíl­um.

Volkswagen, sem horfir fram tuga milljarða dala sektir eftir að fyrirtækið játaði árið 2015 að hafa hagrætt mælingum, mun hafa tilkynnt um samráðið til þýska samkeppnisyfirvalda ásamt Daimler sem framleiðir Mercedes-Benz. 

„Staðreyndin er að ekki hefur verið átt við bíla frá BMW og þeir uppfylla öll lagaleg skilyrð,“ segir í tilkynningu frá BMW. 

„Þetta gildir einnig um díselbíla og er staðfest með niðurstöðum úr prófum á vegum alþjóðayfirvalda.“ 

mbl.is