Sómasamlegur alþýðubíll

Svipur hins nýja Sandero Stepway er tilkomu- og kraftmeiri en …
Svipur hins nýja Sandero Stepway er tilkomu- og kraftmeiri en áður. Þakbogarnir gera mikið fyrir heildarsvipinn. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson

Dacia er það bílamerki sem vaxið hefur hvað hraðast á undanförnum árum í Evrópu. Frá því franski bílsmiðurinn Renault tók yfir rúmenska fyrirtækið árið 2004 eru komnar á götuna tæplega fimm milljónir Dacia-bíla. Sandero er minnstur í fjölskyldunni og jafnframt söluhæstur; höfðar enda til mjög stórs hóps kaupenda vegna lágs verðs.

Til fjölskyldu Dacia heyra einnig Lodgy, Logan, Dokker og Duster. Enn sem komið er hafa aðeins þeir þrír síðastnefndu verið seldir á Íslandi. Sandero hefur verið meðal söluhæstu bíla í Frakklandi undanfarin misseri og þar sem annars staðar í Evrópu hefur hann sankað að sér verðlaunum og viðurkenningum fyrir notagildi. Er t.d. farangursgeymslan 366 lítra sem mun vera það mesta í flokki svonefndra borgarbíla. Sandero er fáanlegur með bensín- eða dísilvél en í sölu hefur sú fyrrnefnda drottnað. Ég prufukeyrði dýrustu útgáfur á frönskum vegum en þar í landi kostar Dacia Sandero á bilinu 8-13 þúsund evrur, eða 1,0 til 1,6 milljónir króna, allt eftir hversu mikið er lagt í einstakar útgáfur af alls níu; fimm með bensínvél og fjórar dísil. Þar sem Renault nýtir fyrst og fremst velreynda upprunalega íhluti sína í Dacia-bílana hefur bilanatíðni þeirra reynst minni en allra bíla 19 annarra framleiðenda á markaði í Evrópu, bæði 2015 og 2016.

Vel búinn „lágverðsbíll“

Nýjasta Sandero-módelið, sem kom á götuna í ár, hefur tekið nokkrum útlitsbreytingum til hins betra. Hefur það skilað sterkari og dýnamískari áhrifum og aukið á fágun þessa annars ódýra bíls. Áklæði á sætum er nýtt og þrívíddarofinn þráður hefur á sér yfirbragð ferskleika og þæginda í Stepway-útgáfunni. Er það módel aukinheldur enn betur búið en „lágverðs“-stallbræðurnir. Með til dæmis bakkmyndavél, skriðstilli, stillingum fyrir bæði topphraða og lágmarkshraða, GPS á Media Nav 7 tommu snertiskjá á mælaborði, leðurklæddu stýri og rafdrifnum rúðum framan sem aftan. Auk þessa má nefna að meðal staðalbúnaðar Stepway eru langbogar á þaki, handfrjáls símabúnaður (Bluetooth), aðgerðahnappar í stýri, þokuljós að framan, bakkskynjarar, start-stop og brekkustoð. Bakkmyndavélin er hins vegar valbúnaður. Aftengja má líknarbelgi í framsæti svo hægt sé að hafa barnasæti þar.

Stepway er frábrugðinn ódýrari útgáfunum í því að hann hefur verið hækkaður um fjóra sentimetra. Þessi bíll kostar um 13.000 evrur með bensínvél á götuna í Frakklandi. Minna búnar útgáfur eru frá 8.000 evrum, ýmist með eins lítra og þriggja strokka 75 eða 90 hesta vél, svo og 1,5 lítra 75 og 90 hesta dísilvél. Í dýrari gerðunum eru vélarnar með forþjöppu. Hefur grunnafl bensínvélar Sandero Stepway aukist um sex hestöfl og snúningsvægið um 10 Nm. Er snúningsátakið 150 Nm við 2.250 snúninga. Vélin skilar 90 hestum við 5.000 snúninga. Togkraftur dísilvélarinnar er öllu meiri, eða 220 Nm.

Smekklegur og þægilegur

Í akstri hélst Sandero Stepway stöðugur á vegunum og var laus við vagg og veltu á krókóttum vegum. Hlýddi hann öllum stefnubreytingum og bremsum ákveðið og örugglega, þökk sé að hluta ESC-stöðugleikastýringu. Hið eina sem ég get sett út á er að mér fannst gírarnir heldur hikandi í byrjun þegar skipt var upp. Það lagaðist þó óðar með því að stíga ákveðið á bensíngjöfina.

Vel fer um mann í þessum bíl og eru innviðir hans smekklegir þótt mikið sé um plast í innréttingunni sem þarf ekki að koma á óvart í svo ódýrum bíl. Með tvo um borð og dót í farangursgeymslu fannst mér lítill munur á afköstum hvort sem um bensín- eða dísilvél var að ræða. Ætla má að dísilbíllinn sé sprækari með fimm manns um borð. Túrbóið á bensínbílnum fannst mér einstaklega sprækt og gefa þessum millistærðarbíl verulega snerpu. Uppgefið er að hröðunin úr kyrrstöðu í 100 km sé 11 sekúndur. Tómaþungi bílsins er 1.047 kíló og uppgefin eyðsla 5,1 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri. Heildarlengd er 4,08 metrar en til samanburðar er Duster 22 sentimetrum lengri. Svipar þeim bræðrum talsvert saman að útliti.

Þægilegur íveru

Hér er um ágætis valkost að ræða, ódýran velbúinn bíl sem nýtur sín í innanbæjarakstri og er þægilegur íveru til lengri ferða. Í bæjarakstri er upplagt að nota Eco-stillingu vélarinnar, það sparar eldsneyti sé farið eftir fyrirmælum á mælaborði um gírskiptingar upp eða niður.

Myndi ég vilja eiga svona bíl? Svarið er já, hiklaust. Upplagður í erindrekstri innanbæjar og til ferðalaga; sómasamlegur alþýðubíll. Ég myndi velja bensínbílinn með handskiptingu.

agas@mbl.is

Svipur hins nýja Sandero Stepway er tilkomu- og kraftmeiri en …
Svipur hins nýja Sandero Stepway er tilkomu- og kraftmeiri en áður. Þessi bíll var söluhæsta módelið í Frakklandi á fyrri helmingi ársins, komu 30.000 eintök á götuna frá áramótum til júníloka. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Vinnuumhverfi ökumanns í Dacia Sandero Stepway. Sjö tommu aðgerðarskjárinn á …
Vinnuumhverfi ökumanns í Dacia Sandero Stepway. Sjö tommu aðgerðarskjárinn á miðstokknum og aðgerðahnappar á stýri. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Farangursrými er 366 lítra og gerast þau ekki rýmri í …
Farangursrými er 366 lítra og gerast þau ekki rýmri í flokki borgarbíla. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Smekkleg áklæði á sætum og leður á stýri.
Smekkleg áklæði á sætum og leður á stýri. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Samsetning yfirbyggingar Sandero Stepway er ekki eins fáguð og á …
Samsetning yfirbyggingar Sandero Stepway er ekki eins fáguð og á dýrum bílum þótt góð sé. Þakbogarnir gera allmikið fyrir heildarsvipinn og bílnum því ekki alls varnað útlits. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Led-dagljós til vinstri, þá aðalljósin og stefnuljósin, allt í einum …
Led-dagljós til vinstri, þá aðalljósin og stefnuljósin, allt í einum kúpli mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Rúmgóð sæti fyrir þrjá aftan í Sandero Stepway.
Rúmgóð sæti fyrir þrjá aftan í Sandero Stepway. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Dacia Stepway Sandero
Dacia Stepway Sandero mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Bakkmyndavélin gefur góða mynd af svæðinu fyrir aftan bílinn og …
Bakkmyndavélin gefur góða mynd af svæðinu fyrir aftan bílinn og gefur nánd til kynna með pípi. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Ný afturljós eru á nýjustu útgáfu Dacia Stepway Sandero.
Ný afturljós eru á nýjustu útgáfu Dacia Stepway Sandero. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Nýi Dacia Stepway Sandero hefur fengið ýmsar andlitslyftingar.
Nýi Dacia Stepway Sandero hefur fengið ýmsar andlitslyftingar. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Nýi Dacia Stepway Sandero hefur fengið ýmsar andlitslyftingar.
Nýi Dacia Stepway Sandero hefur fengið ýmsar andlitslyftingar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: