„Ég get alveg hugsað mér að stýra þessu fleyi áfram“

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar.
Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stofnmælingar og veiðiráðgjöf, vöktun, vísindi og eftirlit með fiski og öðru lífríki í sjó, vötnum og í fiskeldi eru meðal verkefna Hafrannsóknastofnunar. Sameining tveggja stofnana, flutningur stórrar ríkisstofnunar og rekstrarvandi hafa einnig verið meðal áskorana sem Sigurður Guðjónsson hefur tekist á við sem forstjóri stofnunarinnar síðustu tæplega fimm árin. Hann segir margt hafa tekist vel og er tilbúinn að leiða starfsemina áfram.

„Umhverfið í sjónum við Ísland hefur alltaf sveiflast, fiskstofnar vaxið og dvínað, síldin komið og farið. Hins vegar hafa orðið umhverfisbreytingar á síðustu áratugum sem ekki hafa sést áður. Alls staðar er að hlýna. Makríllinn birtist fyrir nokkrum árum. Loðnan hefur breytt hegðun sinni og útbreiðslusvæði, ýsan er í auknum mæli komin norður fyrir land.

Sumir stofnar hafa stækkað og aukið útbreiðslusvæðin, en aðrir komist að þolmörkum. Þó svo að sjórinn sé kaldari núna en hann var fyrir tveimur árum og áratuginn þar á undan erum við á ýmsan hátt í umhverfi sem við höfum aldrei séð áður,“ segir Sigurður.

Í fararbroddi á sviði nýtingar og verndunar

„Á sviði nýtingar og verndunar auðlinda hafs og vatna höfum við verið í fararbroddi að ganga vel um og nýta þessar auðlindir á sjálfbæran hátt. Á sviði rannsókna gætum við staðið enn framar og einnig verið í fararbroddi þar. Við stöndum okkur vel við að mæla, en þyrftum að setja meiri kraft í að greina stöðuna. Svara því hvert þróunin stefnir og tengja breytingar í umhverfinu við lífríkið og þá fiskistofnana. Það er einmitt verkefni í gangi hjá okkur núna að greina áhrif loftslagsbreytinga á lífríkið og nytjastofna. Þessu verkefni lýkur með stöðuskýrslu nú í vor,“ segir Sigurður.

Aukið rannsóknarfé

Hann segir að stofnunin standi framarlega í stofnmælingum og veiðiráðgjöf, en á sama tíma sé hætta á að við drögumst aftur úr í grunnrannsóknum í líffræði og haffræði og þær þyrfti að auka. Fjármagn hafi skort til slíkra verkefna, en einnig sé skortur á fólki eins og hafeðlisfræðingum. Meðal annars í ljósi umhverfisbreytinga sé aðkallandi að bæta úr á þessum vettvangi.

„Það var því sérstaklega mikilvægt að auka samstarf við Háskóla Íslands og koma á meistaranámi í fiskifræði og skyldum greinum eins og við gerðum en það nám hófst síðasta haust. Það samstarf á án efa eftir að skila inn sérfræðingum á stofnunina í framtíðinni og auka þekkinguna.“

Unnið að humarrannsókn.
Unnið að humarrannsókn. Ljósmynd/Svanhildur Egilsdóttir

„Þá hófum við í sameinaðri stofnun einnig mikla sókn í erlenda rannsóknarsjóði sem hefur skilað 433 milljónum af auknu rannsóknarfé til stofnunarinnar. Það hefur gefið okkur aukinn styrk til ákveðinna rannsókna.“

Um síðustu áramót voru starfsmenn Hafrannsóknastofnunar 176 talsins í 169 stöðugildum til sjós og lands. Stofnunin starfar nú á níu stöðum á landinu auk höfuðstöðvanna í Hafnarfirði. Sigurður segir mannauðinn vera dýrmætustu auðlind hverrar stofnunar, ekki síst í þekkingarfyrirtækjum eins og Hafrannsóknastofnun er. Á síðustu árum hafi orðið talsverð endurnýjun og konum hafi stórfjölgað í hópnum. Þá má nefna að 35 doktorar starfa nú hjá stofnuninni.

Sigurður bendir á að þrátt fyrir kórónuveikifaraldurinn hafi með samstilltu átaki tekist að halda starfseminni nánast óskertri og farið hafi verið í alla rannsóknaleiðangra.

Dælir næringarefnum inn á Íslandsmið

Sigurður staldrar við loðnuna, sem mikið hefur verið í fréttum undanfarið. Hann segir stofninn hafa minnkað og vera í vandræðum, sem sé alvarlegt fyrir lífríkið.

„Loðnustofninn er einn mikilvægasti fiskstofninn við landið, ekki bara í veiðum, heldur er hún næringarefnadæla. Hún fer norður í höf og nær í orku sem hún syndir með inn á Íslandsmið þar sem hún er fæða margra annarra tegunda. Ef stofninn minnkar, svo ég tali ekki um ef hún hyrfi, þá eru margir fiskstofnar í vanda og þorskurinn kannski efstur á blaði. En sem betur fer lítur út fyrir að loðnan sé aftur að ná sér eitthvað á strik, kannski vegna þess að það hefur aftur kólnað í hafinu.“

Þó svo að að stofnmælingar á þorski hafi á síðasta ári sýnt að tegundin hafi aðeins gefið eftir segir Sigurður að þorskstofninn standi sterkt. „Við höfum markvisst verið að byggja stofninn upp í langan tíma og þorskurinn virðist ráða við þessar breytingar í umhverfinu. En það er líklegt, nú þegar uppbyggingunni er lokið, að við förum að sjá sveiflur í þorski sem stafa fyrst og fremst af sveiflum í umhverfinu í hafinu.“

Sigurður þekkir vel til ástandsins í ám og vötnum sem fyrrverandi forstjóri Veiðimálastofnunar. Hann segir að umhverfisáhrif séu greinileg á þeim vettvangi og miklar breytingar hafi orðið.

„Bleikjan hefur gefið mikið eftir og er orðin fáliðuð í láglendisvötnum á Suður- og Vesturlandi. Það er helst í heiðarvötnum og djúpum vötnum sem bleikjan virðist enn hafa það gott og sjóbleikjan á í miklu basli um allt land. Urriðinn er hins vegar að vaxa og víða er kominn sjóbirtingur þar sem áður sást lítið eða ekkert af honum. Laxinn hefur líka aukið útbreiðslu sína, en sveiflur verið miklu meiri og tíðari í laxgengd en áður var og óstöðugleikinn aukist.“

Loðnuskip að veiðum.
Loðnuskip að veiðum. mbl.is/Golli

Starfsfriður í fiskeldi

Innan Hafrannsóknastofnunar hefur verið byggt upp svið sem sinnir málefnum fiskeldis, en umfang þess hefur aukist mjög hérlendis á síðustu árum og þar eru miklir vaxtarmöguleikar.

„Fyrir nokkrum árum var staðan þannig í fiskeldinu að atvinnulífið var, eins og oft er, komið langt á undan hinu opinbera og þessi staða leiddi til árekstra mismunandi hagsmuna. Verkefni okkar var að búa til umgjörð hvernig ætti að stýra umfangi sjókvíaeldis á vísindalegan hátt eins og í fiskveiðum og það kerfi á eftir að þróast og þroskast. Eins og staðan er núna þá hefur fiskeldið fengið starfsfrið og veiðiréttarhafar og stangveiðimenn anda rólegar því það á ekki að leyfa allt.“

–En það á ekki að vernda allt heldur?

„Ef við ætlum að vernda allt erum við einfaldlega að segja að það verði ekkert fiskeldi, en það er ekki ætlunin. Við ætlum að lágmarka umhverfisáhrifin og við ætlum að vernda og gæta vel að okkar dýrmætu laxveiðiám.“

Laxeldi verður sífellt umfangsmeira.
Laxeldi verður sífellt umfangsmeira. mbl.is/Helgi Bjarnason

Í pistli sem Sigurður tók saman í lok síðasta árs segir hann meðal annars um fiskeldið: „Margt er óunnið bæði í rannsóknum og þróun í að aðlaga sjókvíaeldi að íslenskum aðstæðum. Um þetta eldi ríkti nánast stríðsástand en svo er ekki lengur. Vísindaleg nálgun okkar með burðarþolsmati og áhættumati vegna erfðablöndunar er nýtt til að stýra umfangi og aðferðum í sjókvíaeldinu. Þessi nálgun hefur vakið mikla athygli og þegar hafa rannsóknastofnanir í Kanada tekið aðferðina upp í samvinnu við okkur. Fleiri lönd líta til þessarar leiðar til að stýra fiskeldi.

Íslensk fiskeldisfyrirtæki hafa þegar byrjað að nýta sér þetta á markaði þar sem umhverfissjónarmið þessarar leiðar vega mjög þungt. Mikilvægt er að hér þróist fjölbreytt fiskeldi og verðmæti fiskeldis hér á landi geta vel orðið jafnmikil og í sjávarútvegi ef vel er á haldið. Það getur gerst hratt með öflugu þróunar- og rannsóknarstarfi.“

Sameining tveggja stofnana

Sigurður var skipaður forstjóri Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna 1. apríl 2016. Stofnunin varð til með sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar og tók til starfa 1. júlí 2016. Sigurður er 63 ára líffræðingur frá Háskóla Íslands, lauk meistaraprófi frá Dalhousie-háskóla í Halifax í Kanada 1983 og doktorsprófi í fiskifræði frá Oregon-háskóla í Bandaríkjunum 1990. Hann var framkvæmdastjóri Veiðimálastofnunar og síðan forstjóri 1997-2016.

„Hugmyndin að sameina þessar stofnanir var góð. Ég tel að starfsemi Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar í einni stofnun hafi runnið ágætlega saman og talsverð samlegðaráhrif voru fólgin í samrunanum. Starfsemin var endurskipulögð við sameiningu, en það skipulag hefur síðan verið tekið til endurskoðunar í ljósi reynslunnar. Ég fór markvisst í að bæta starfsaðstöðu, m.a. með nýjum tölvubúnaði og hugbúnaði. Þá var nauðsynlegt að aðskilja tölvurekstur okkar frá Fiskistofu, sem átti ekki lengur samleið.“

Sigurður segir að það hafi reynst stofnuninni erfitt að grunnstarfsemin var ekki fjármögnuð með tryggum hætti. Stór hluti starfseminnar hafi verið háður sjóðum eins og Verkefnasjóði sjávarútvegsins og það hafi ekki verið trygg fjármögnun. Í samvinnu við ráðuneyti, ráðherra og fjárveitingavaldið Alþingi hafi að nokkru verið bætt úr þessu. Sigurður segir að rekstur síðasta árs sé í jafnvægi. Velta stofnunarinnar var um 4,2 milljarðar og sértekjur 1,2 milljarðar.

Fornubúðir húsnæði Hafrannsóknastofnunar. Við bryggjuna eru skip Hafrannsóknastofnunar Bjarni Sæmundsson …
Fornubúðir húsnæði Hafrannsóknastofnunar. Við bryggjuna eru skip Hafrannsóknastofnunar Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson. mbl.is/Sisi

Hagræðing og flutningar

Sigurður segir að fara hafi þurft í krefjandi aðgerðir til að hagræða í rekstri og forgangsraða verkefnum en einnig hafi þurft að segja upp fólki og fækkað hafi verið í yfirstjórn og stoðþjónustu. Erfitt sé að þurfa að segja upp starfsfólki og lagaumgjörð starfsmannamála hjá ríki geri það ekki einfaldara í framkvæmd. Hann segir að starfsandi á stofnuninni sé góður, en eðlilega hafi hann minnkað tímabundið í kjölfar erfiðra uppsagna og aðhaldsaðgerða haustið 2019.

Hafrannsóknastofnun hafði lengi verið til húsa við Skúlagötu, nálægt Reykjavíkurhöfn, en flutti á síðasta ári í Fornubúðir í Hafnarfirði.

„Við þjöppuðum okkur saman á Skúlagötunni þegar Veiðimálastofnun fluttist þangað og það var orðið þröngt um okkur. Auk þess var aðstaðan á Skúlagötunni komin til ára sinna og það var því kærkomið að flytja. Stjórnarráðið vildi fá húsið og ég sá möguleika í flutningum ef við fyndum gott húsnæði nálægt höfn. Sú aðstaða er fyrir hendi í Hafnarfirði, menn geta nú farið á inniskónum yfir í rannsóknaskipin og lyftarar fara með veiðarfæri um borð í stað þess að flytja þau með vörubílum.

Það er ekki óeðlilegt að spenna hafi verið í starfsliðinu fram að flutningi, en eftir hann heyri ég ekki annað en ánægju með að koma í nýtt hús, sem var hannað af leigusala í samráði við okkur. Útkoman er líka góð, hér er frábær aðstaða til rannsóknavinnu í fallegu húsi. Þegar upp er staðið voru flutningarnir mikilvægt skref í uppbyggingu nýrrar Hafrannsóknastofnunar.“

Hlutverk ríkisins

Útgerðarfyrirtæki hafa síðustu árin komið að loðnuleit og mælingum og staðið straum af kostnaði sinna skipa. Sigurður segir að samhliða breytingum á útbreiðslu og göngum loðnunnar hafi orðið erfiðara að ná mælingum á henni.

Útgerðin hafi komið inn í þetta verkefni með Hafrannsóknastofnun og hafi sætt sig við kostnaðinn enda líkur á veiðum í kjölfarið. Síðustu tvö árin hefur stofninn hins vegar verið það lítill að hann þoldi ekki veiði og þá hafi vilji útgerðarinnar eðlilega minnkað.

„Útgerðarmenn hafa verið viljugir og áhugasamir í þessum efnum, en það er hins vegar skýrt af þeirra hálfu að þeir ætla sér ekki að vera með óútfylltan tékka til að nota í þetta verkefni. Þeir hafa bent á að þeir greiði veiðigjöld, sem meðal annars á að nota í starfsemi Hafrannsóknastofnunar. Ég hef fullan skilning á afstöðu útgerðarinnar og við höfum átt gott samstarf við þá. Við höfum fengið aukið fjármagn frá ríkisvaldinu til loðnurannsókna, sem almennt er hlutverk Hafrannsóknastofnunar,“ segir Sigurður.

Tilbúinn að stýra fleyinu áfram

Skipunartími Sigurðar rennur út 1. apríl og var starf forstjóra Hafrannsóknastofnunar auglýst í desember. Spurður um auglýsinguna og hvort hann sæki um segir Sigurður:

„Jú, ég get alveg hugsað mér að stýra þessu fleyi áfram og sótti því um. Ég hef haft ánægju af þessu starfi og finnst ég geta unnið áfram að góðum málum með frábæru samstarfsfólki á stofnuninni. Það er almennt ekki venjan að auglýsa svona stöður eftir fimm ár, en einstaka ráðherrar hafa þó haft þá stefnu að auglýsa alltaf.“

Bylting í starfseminni

Vonast er til að samningar um smíði nýs og fullkomins hafrannsóknaskips liggi fyrir í vor og nýtt skip komi til landsins árið 2023. Sigurður Guðjónsson segir að nýtt skip verði bylting í starfsemi Hafrannsóknastofnunar, en það á að koma í stað Bjarna Sæmundssonar, sem er rúmlega 50 ára gamalt skip. Ákvörðun um smíði skipsins var tekin á sérstökum hátíðarfundi á Þingvöllum sumarið 2018 í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli.

Í byrjun nóvember þegar Bjarni Sæmundsson kom til hafnar á …
Í byrjun nóvember þegar Bjarni Sæmundsson kom til hafnar á Húsavík en hann var í haustleiðangri Hafró. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Þarfagreiningu og frumhönnun á skipinu er lokið og eftir að hafa fengið kostnaðarmat frá skipasmíðastöðvum er nú áætlað að kostnaður við smíði skipsins verði allt að 5,6 milljarðar á núverandi gengi. Tekið hefur verið tillit til þessa í fjármálaáætlun. Sigurður segir að Ríkiskaup séu að vinna útboðslýsingu og miðað sé við að fara í svokallað samkeppnisútboð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 501,21 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 371,38 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 197,72 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.4.24 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Steinbítur 8.181 kg
Þorskur 404 kg
Skarkoli 88 kg
Ýsa 78 kg
Samtals 8.751 kg
18.4.24 Eyrarröst ÍS 201 Landbeitt lína
Steinbítur 3.179 kg
Þorskur 460 kg
Skarkoli 160 kg
Ýsa 94 kg
Samtals 3.893 kg
18.4.24 Sæli BA 333 Lína
Þorskur 1.581 kg
Ýsa 18 kg
Skarkoli 17 kg
Samtals 1.616 kg
18.4.24 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Steinbítur 923 kg
Ýsa 369 kg
Þorskur 199 kg
Hlýri 78 kg
Skarkoli 56 kg
Langa 25 kg
Ufsi 18 kg
Samtals 1.668 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.4.24 501,21 kr/kg
Þorskur, slægður 18.4.24 634,24 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.4.24 371,38 kr/kg
Ýsa, slægð 18.4.24 140,96 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.4.24 197,72 kr/kg
Ufsi, slægður 18.4.24 265,14 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 18.4.24 172,97 kr/kg
Litli karfi 18.4.24 70,38 kr/kg
Blálanga, óslægð 11.3.24 50,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.4.24 Hrefna ÍS 267 Landbeitt lína
Steinbítur 8.181 kg
Þorskur 404 kg
Skarkoli 88 kg
Ýsa 78 kg
Samtals 8.751 kg
18.4.24 Eyrarröst ÍS 201 Landbeitt lína
Steinbítur 3.179 kg
Þorskur 460 kg
Skarkoli 160 kg
Ýsa 94 kg
Samtals 3.893 kg
18.4.24 Sæli BA 333 Lína
Þorskur 1.581 kg
Ýsa 18 kg
Skarkoli 17 kg
Samtals 1.616 kg
18.4.24 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína
Steinbítur 923 kg
Ýsa 369 kg
Þorskur 199 kg
Hlýri 78 kg
Skarkoli 56 kg
Langa 25 kg
Ufsi 18 kg
Samtals 1.668 kg

Skoða allar landanir »